Áhafnir Freyju og TF-EIR höfðu verk að vinna í Málmey
Þau eru mörg og mismunandi verkefnin sem Landhelgisgæslan kemur að. Á vef Gæslunnar er sagt frá því að fimmtudaginn 17. ágúst var farið í vitann í Málmey á Skagafirði en það er eitt af árlegum verkefnum LHG að sinna viðhaldi á vitum víða um land. Að þessu sinni þurfti m.a. að flytja tvo þunga rafgeyma yfir í Málmey úr varðskipinu Freyju og var því nauðsynlegt að fá þyrlu Landhelgisgæslunnar, TF-EIR, til hjálpar.
„Rafgeymarnir vógu um 270 kíló hvor. Þeim var lyft með þyrlunni frá varðskipinu yfir í Málmey og ónýtu rafgeymarnir fluttir aftur í Freyju. Þá fór einnig fram hefðbundið eftirlit á ljósbúnaði vitans,“ segir í fréttinni.
Þessir árlegu vitatúrar LHG er unnir í samstarfi við Vegagerðina en áratugum saman hafa varðskip siglt meðfram ströndum landsins vegna eftirlits með ljósvitum, skerjavitum, sjómerkjum og ljósduflum sem ekki er hægt að komast í frá landi.
Áhöfnin á varðskipinu Freyju og starfsmenn Vegagerðarinnar fóru í maí í vitatúrinn þar sem þessu árlega viðhaldi var sinnt. Alltaf eru einhverjir vitar sem ekki tekst að klára í þessum sérstöku ferðum og kemur það þá í hlut áhafna varðskipanna að fara í þá vita sem út af standa.
Daginn eftir heimsóknina í Málmey nú í ágúst var farið í vitann í Háey og þar á eftir ætlaði Gæslan að kíkja ávitana í Hrolllaugseyjum og Melrakkanesi.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.