Rabb-a-babb 87: Inga Birna
Nafn: Inga Birna Friðjónsdóttir.
Árgangur: 1987.
Fjölskylduhagir: Búin að vera í longdistance sambandi í vetur en fæ að vera með mínum heitt elskaða fram á haustið, legg skype tímabundið á hilluna. Foreldrar og yngri bróðir á Króknum ásamt hundinum og svo er Elva systir í Reykjavík.
Búseta: Búin að vera í Danmörku undanfarinn vetur og verð búsett þar áfram næsta árið fyrir utan sumarið þar sem ég mun búa í Reykjavík.
Hverra manna ertu: Auður sjúki þjálfari og listmálari er móðir mín og Friðjón læknir með nýju mjöðmina er faðir minn. Mamma er hálfur skoti og hálfur Hafnfirðingur en pabbi er afkomandi Egils Skallagrímssonar úr Mýrasýslu.Starf / nám: Fatahönnun í TEKO í Danmörku og svo er alveg hægt að telja fótboltann sem hlutastarf ef ekki fullt.
Bifreið: Opel Astra.
Hestöfl: Hef ekki hugmynd, ekki mörg allavega.
Hvað er í deiglunni: Klára skólann og svo er spennandi knattspyrnusumar framundan og Meistaradeild í haust.
Hvernig hefurðu það? Alveg ofsalega gott.
Hvernig nemandi varstu? Ég var verðlaunuð fyrir alhliða námsárangur í 10 bekk. Það kom mér og ekki síður foreldrum mínum reyndar alveg svakalega á óvart en ég hlýt að hafa verið að gera eitthvað rétt. Það var auðvelt að ná mér í chattið samt.
Hvað er eftirminnilegast frá fermingardeginum? Að Anna Ragna fékk meiri pening en ég í sameiginlegu veislunni okkar...
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? Móðir mín sagði einu sinni við mig að ég hafi látið það útúr mér á unga aldri að ég hafi bara ætlað að verða það sem yrði eftir, þegar allir aðrir væru búnir að velja sér starf. Eftir það ætlaði ég að verða skúringakona en sá draumur fórst með bakmeiðslunum mínum. Mig langaði líka alltaf soldið mikið að verða lögga.
Hvað hræðistu mest? Ég óttast ekki um eigið líf eða hagi, ég hræðist frekar að eitthvað slæmt komi fyrir þá sem standa mér næst.
ABBA eða Rolling Stones? ABBA.
Hver var fyrsta platan sem þú keyptir (eða besta)? Pabbi leyfði mér alltaf að kaupa eina og eina dansskífu þegar við bjuggum í Svíþjóð en þegar ég flutti á Krókinn 10 ára að aldri sagði ég við hann að nú langaði mig í svona rapp disk, við fórum í skaffó og ég gekk glöð út með Big Willie Style með Will Smith.
Hvaða lag er líklegast að þú takir í Kareókí? Hardest Part með Coldplay.
Hverju missirðu helst ekki af í sjónvarpinu (fyrir utan fréttir)? Pepsi mörkunum.
Besta bíómyndin? Alltaf að breyta, en ég fer í bíó til að upplifa hluti sem ekki er hægt að upplifa í raunveruleikanum svo ég elska myndir sem eru gerðar eftir ævintýrabókum.
Hvað gerir þú betur en allir aðrir á þínu heimili? Ég er rosalega góð í að nota fólkið í kringum mig til að gera það sem ég nenni ekki að gera sjálf, sem er hrikalegur galli og ég er að vinna í honum!
Hvert er snilldarverkið þitt í eldhúsinu? Hef ekki fundið mína köllun í eldhúsinu ennþá.
Hvað fer helst í innkaupakörfuna sem ekki er skrifað á tossamiðann? Girnilegir ávextir.
Hvað er í morgunmatinn? Hafragautur eða korflex með soya mjólk.
Hvernig er eggið best? Eins og pabbi gerir það, steikt báðum megin og gert ofboðslega djúsí með einhverri aðferð sem ég er ekki enn búin að ná tökum á.
Uppáhalds málsháttur? Googlaði og fann einn góðan: Nær ein kýrin pissar, pissa þær allar. Ég er ekki málsháttarmanneskja.
Hvaða teiknimyndapersóna höfðar mest til þín? Tvíhöfða drekinn í Töfrasverðinu.
Hver er uppáhalds bókin þín? Ég er Harry Potter lúði.
Ef þú gætir hoppað upp í flugvél og réðir hvert hún færi, þá færirðu.. ...til Tælands.
Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu? Þegar ég tala of mikið og þegar ég fresta hlutunum í staðinn fyrir að takast á við þá.
Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra? Óheiðarleiki, metnaðarleysi og þröngsýni.
Enski boltinn - hvaða lið og af hverju? Manchester United – besta liðið með mesta hjartað.
Hvaða íþróttamanni hefurðu mestar mætur á? Hef ákveðið að færa Paul Scholes upp í efsta sætið.
Hvaða fræga manneskja mundir þú helst vilja vera og af hverju? Held ég verði að segja Beyonce. Hún virðist vera í fullkomnu jafnvægi og virkilega hamingjusöm og fær að gera það sem hún elskar að gera, er ógeðslega falleg, alltof rík og nær að þroskast sem einstaklingur þrátt fyrir allt áreitið sem fylgir því að vera í hennar sporum.
Hver var mikilvægasta persóna síðustu 100 ára að þínu mati? Ég ætla að segja hátísku hönnuðurinn Cristobal Balenciaga heitinn. Faðir hátískunnar, allir sem komu á eftir litu upp til hans.
Ef þú ættir að dvelja alein/n á eyðieyju, hvaða þrjá hluti tækirðu með þér? Vagn á hjólum, exi og boga með örvum.
Hver væri titillinn á ævisögu þinni? Sár, brjósklos og takkaskór.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.