Tveir góðir fiskréttir og gómsætur kjúklingaréttur
Nína Ýr Nielsen og Gísli Rúnar Konráðsson voru matgæðingar Feykis í febrúar árið 2010. Þau sögðu að uppskriftirnar ættu að virka vel fyrir alla. -Við ætlum að gefa ykkur þrjár uppskriftir að fljótlegum og afar vinsælum réttum hér á heimilinu. Þetta eru miklir uppáhaldsréttir hjá ungdómnum á heimilinu ... og ekki skemmir fyrir hversu fljótlegir þeir eru.
Fiskur í paprikuostasósu
- U.þ.b. 700 gr. ýsa eða þorskur
- askja af paprikuosti (eða bara hvaða smurosti sem er)
- matreiðslurjómi eftir smekk
- salt og pipar
- ostur
Fiskflökin sett í eldfast mót. Salti og pipar stráð yfir. Því næst er paprikuostinum og matreiðslurjómanum blandað saman og hellt yfir fiskinn. Osti stráð yfir. Bakist í ofni í 25-30 mín. við 180˚. Berið fram með fersku grænmetissalati og fetaosti.
Fiskur með sætu sinnepi og banönum
- U.þ.b. 700 gr. ýsa eða þorskur
- sætt sinnep
- 2 bananar
- salt og pipar
- ostur
Fiskflökin sett í eldfast mót, salti og pipar stráð yfir. Makið sæta sinnepinu yfir fiskinn, skerið bananana niður og setjið ofan á. Stráið osti yfir að lokum og bakið við 180˚ í 25-30 mín. Gott er að bera kartöflur fram með þessum rétti.
Mexíkóskur kjúklingaréttur
Þessi réttur er í miklu uppáhaldi hjá fjölskyldunni og vinum okkar. Meira að segja hjá þeim sem borða helst ekki kjúkling.
- 4 kjúklingabringur
- 1 krukka salsasósa
- 1 krukka ostasósa
- 2 pokar Dorritos snakk
- 1 askja sýrður rjómi
- ostur
Einn poki Dorritos snakk, mulið og sett í botninn á eldföstu móti. Salsa- og ostasósan sett yfir snakkið. Kjúklingabringurnar léttsteiktar, skornar í bita og settar í eldfasta mótið. Osti stráð yfir og sett í ofn. Bakast í 20 mín. við 180˚. Sýrður rjómi er ómissandi meðlæti ásamt fersku grænmeti, s.s. papriku, tómötum og gúrku.
Verði ykkur að góðu.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.