Toskönsk kjúklingasúpa og danskur grautur
Kristín Guðmundsdóttir, vefhönnuður hjá Dóttir vefhönnun, og Þorvaldur Björnsson, kokkur í Skólabúðunum á Reykjaskóla, sáu um matarþátt Feykis í 39. tbl. Feykis árið 2017. Þau voru þá nýflutt aftur norður í land eftir tíu ára búsetu í Kaupmannahöfn en Þorvaldur er uppalinn í Miðfirðinum en Kristín í Reykjavík. „Við höfum sest að í Hrútafirði með börnin fjögur sem ganga í leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla á Hvamsmtanga. Í Kaupmannahöfn var Þorvaldur yfirkokkur á dönskum veitingastað og leggur hér fram uppskrift af toskanskri kjúklingasúpu og uppáhalds eftirrétti Danans sem heitir Rødgrød med fløde, borið fram á danska vísu “röðgröððð meðð flöðöehh”. sem myndi þýðast yfir á íslensku “berjagrautur með rjóma”, sögðu þau Kristín og Þorvaldur.
RÉTTUR 1
Matarmikil toskönsk kjúklingasúpa
1 heill kjúklingur
kryddjurtavöndur (4 greinar timian og rósmarín og nokkur lárviðarlauf, má auka)
2 laukar
2 púrrulaukar
3 hvítlauksgeirar
4 gulrætur
2 stilkar sellerí
2 steinseljurætur
1 dós tómatar
2 dl hvítvín
1 dós hvítar baunir
1 lúka fersk smátt skorin steinselja
Aðferð:
Sjóðið kjúklinginn og kryddjurtavöndinn í vatni, þannig að fljóti yfir. Geymið soðið þegar kjúklingurinn er tilbúinn, rífið kjötið af honum og leggið til hliðar. Brúnið kjúklingaskrokkinn í ofni við ca 200°C og setjið hann svo aftur ofan í soðið.
Skerið lauk, púrrulauk, hvítlauk, gulrætur, sellerí og steinseljurætur smátt og mýkið í olíu í potti með kryddjurtum í nokkrar mínútur. Bætið tómötum og hvítvíni við, sjóðið niður.
Takið skrokkinn úr soðinu og hellið því yfir grænmetið, látið simmra og smakkið til með salti og pipar. Bætið að lokum hvítu baununum í.
Rétt áður en súpan er borin fram er kjúklingnum bætt við og fersku steinseljunni dreift yfir. Berið fram með hvítlauksbrauði eða foccacia brauði.
RÉTTUR 2
Rauðgrautur með rjóma (Rødgrød med fløde)
1 kg blönduð ber (jarðarber, sólber, rifsber)
200 g frosin hindber
1 dl vatn
300 g sykur
1-2 msk kartöflumjöl
rjómi
Aðferð:
Leggið berjablönduna, fyrir utan hindberin, í bleyti með vatni og sykri í nokkra tíma. Hitið berjablönduna að suðu og látið sjóða í 2-3 mínútur. Lækkið hitann og takið pottinn af hellunni til þess að fá suðuna niður. Blandið hindberjunum varlega saman við.
Þykkið grautinn með kartöflumjöli, hann á að vera eins og hafragrautur á þykkt og má ekki sjóða eftir að kartöflumjölið er komið út í.
Sáldrið smá sykri yfir grautinn og kælið í smá stund. Berið fram með köldum rjóma.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.