Tortillakökur, grillaður nautavöðvi og bomba í restina

Uppskriftir vikunnar eru frá þeim Valdísi Brynju Hálfdánardóttur og Rúnari Þór Númasyni á Hofsósi. Í forrétt eru tortillakökur, grillaður nautavöðvi í aðalrétt og bomba í restina til að fullkomna veisluna.

Forréttur

  • Tortilla kökur 2 pakkar
  • Rjómaostur hálft box
  • Salsasósa 1 krukka medium
  • 1 pakki af skinku eða eftir smekk.
  • Hálfur fínt saxaður rauðlaukur
  • 1 rauð paprika

Rjómaosturinn og salsasósan hrærð saman og smurt á hverja köku. Skinkunni, lauknum og  paprikunni er svo dreift yfir. Hverri köku er svo rúllað upp og skorin í litla bita. Einnig er þetta gott snakk í partýum, en þetta er aðal snakkið á Þjóðhátíð í eyjum.

 

Aðalréttur

Grillaður nautavöðvi

Vöðvinn er látinn marinerast í grillolíu og út á hann sett salt, pipar og smá af kryddinu „Best á kjúklinginn“. Hann er grillaður þannig að hann er hafður á frekar háum hita fyrst til að loka honum og svo er hann látinn malla í smá stund á lægri hita. Vöðvinn er svo tekinn í hús og látin standa á borði í ca. 10 mín. til að láta hann jafna sig og síðan er hann skorinn. Með þessari aðferð helst allur safinn í vöðvanum. Með þessu er gott að vera með ferskt salat og rífa piparost í það. Köld piparsósa, grillaðar kartöflur og grillaður rauðlaukur.

 

Eftirréttur

 Bomba

  • 1 lítri af karamelluís
  • 1 peli þeyttur rjómi og vanillusykur settur í hann.
  • Saxað Tromp
  • Saxað Rís
  • Saxaður Þristur
  • Skorin vínber
  • Skorin jarðarber
  • Skorin kíwí
  • Bláber
  • 4 Kókosbollur

Þessu er öllu hrært saman nema kókosbollunum, en þær eru kramdar og settar ofan á. Einnig er tekið smá af öllu og sett ofaná til skreytingar. Þetta er svo  sett í mót og inn í frysti og svo látið aðeins taka sig áður en það er borið fram.

Verði ykkur að góðu

(Áður birt í Feyki í maí 2010)

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir