Tartalettur, kjúklingur í sweet chili rjómasósu og geggjaður eftirréttur
Matgæðingar í 41. tölublaði ársins 2018 voru þau Steinunn Valdís Jónsdóttir og Sigurður Ingi Ragnarsson, búsett á Sauðárkróki. Steinunn og Sigurður eiga fjögur börn sem voru þegar þátturinn var gefinn út á aldrinum 13 - 23 ára. Þau gáfu þau okkur uppskriftir að þremur réttum sem þau sögðu fljótlegar og vinsælar hjá fjölskyldumeðlimum.
RÉTTUR 1
Tartalettur
100 g rjómaostur
2 msk. majónes
2 egg
½ tsk. aromat krydd
½ tsk. seson all
½ tsk. karrý
200 g skinka
1 bolli soðin hrísgrjón
3 msk. aspas
3 msk. ananaskurl
Aðferð:
Öllu hrært saman og sett í tartalettur, rifinn ostur settur yfir og gott að strá smá Season all yfir. Sett í ofn við 150° í 10 mínútur.
RÉTTUR 2
Kjúklingaréttur
Freistandi kjúklingur í púrrulauks- og sweet chili rjómasósu (fyrir 5):
5 kjúklingabringur, skornar í teninga (gúllas stærð)
1 púrrulaukur, smátt skorinn
2 dósir sýrður rjómi
1 lítil dós rjómaostur (125 g)
1 teningur kjúklingakraftur
2 hvítlauksrif, smátt söxuð eða rifin
4-5 msk. sweet chilli sósa (eftir smekk)
1 dl rifinn ostur
salt og pipar
Aðferð:
Hitið ofn í 200°C með blæstri. Hitið pönnu með smá smjöri eða olíu, saltið og piprið kjúklingabitana og brúnið þá vel eða þar til þeir eru nánast fulleldaðir. Setjið kjúklinginn í eldfast mót. Lækkið hitann á pönnunni, setjið smá olíu eða smjör á pönnuna og steikið púrrulaukinn þar til hann mýkist aðeins, u.þ.b. þrjár mínútur.
Setjið rjómaostinn, sýrða rjómann, kjúklingatening, hvítlauk og sweet chilli sósuna út á og leyfið að malla aðeins, smakkið til með sweet chilli sósunni. Bætið örlitlu vatni saman við sósuna ef ykkur finnst hún of þykk. Stráið rifna ostinum yfir kjúklingabitana og hellið sósunni því næst yfir. Bakið í ofni við 200° í 15 mínútur eða þar til kraumar í sósunni og hún hefur tekið lit. Berið fram með góðu grænu salati og grjónum.
GEGGJAÐUR EFTIRRÉTTUR
Súkkulaði lúxus með rjóma
4 egg
3 dl sykur
200 g smjör
200 g suðusúkkulaði
150 g heslihnetur eða Daim kúlur
1 dl hveiti
Aðferð:
Þeytið vel saman egg og sykur. Bræðið súkkulaðið og smjörið í potti. Blandið hveitinu og hnetunum/Daim kúlunum saman við eggjahræruna og setjið svo súkkulaðið varlega saman við. Bakið í eldföstu móti við 150°C í 1 klst. neðst í ofninum.
Berið fram með þeyttum rjóma eða ís. Gott að setja ferska ávexti ofan á t.d. jarðaber, vínber, bláber, banana eða kiwi.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.