Sushi og nautakjöt í Guiness bjór
Helga Hinriksdóttir og Páll Sigurður Björnsson frá Hvammstanga voru matgæðingar Feykis í 27. Tölublaði ársins 2010. Þau buðu upp á sushi og nautakjöt í Guiness bjór.
„Það er nokkuð skýr verkaskipting í eldhúsinu okkar, Helga eldar og Palli gengur frá! Ágætis skipti. Við borðum aldrei forrétt en hér er mikið æði fyrir sushi og það er vel hægt að borða það sem forrétt. Við borðum það samt alltaf sem aðalrétt - og eftirrétt því maður getur endalaust nartað í einn bita í viðbót! Ef maður borðar sushi sem aðalrétt þá hef ég miðað við að einn poki af hrísgrjónum (500 gr) dugi fyrir u.þ.b. 5 manns. Við erum heldur ekki oft með eftirrétti, en ef að það er þá er það oftast ís, Royal búðingur með rjóma eða bara góð ostakaka,“ sögðu þau Helga og Páll, en uppskriftir þeirra er að finna hér fyrir neðan.
Forréttur
Sushi
- hrísgrjón
- hrísgrjónaediki
- sykur
- wasabi
- Philadelphia smurostur með hvítlauksbragði
- reykt hrefna
- rucola salat
- rifsberjahlaup
Aðferð:
Við erum mjög frjálsleg í sushigerð, setjum allskonar fyllingar í og myndum eflaust mæta vanþóknun í Japan fyrir vikið!
Hér kemur uppáhalds bitinn okkar: Sjóðið hrísgrjón eftir leiðbeiningum og bætið við hrísgrjónaediki og sykri (ágætar leiðbeiningar aftan á Blue Dragon grjónapökkum). Inn í þessar Maki rúllur setjum við örlítið wasabi, smyrjum svo yfir hrísgrjónin með smurosti, reykt hrefna ( eftir smekk), rucola salat og smá rifsberjahlaup. Öllu svo rúllað upp og skorið niður í passlegar stærðir.
Aðalréttur
Beef and Guinness – Nautakjöt í Guinness bjór
- nautagúllas (ca 500 - 700 gr)
- olíu
- 2 msk hveiti
- salt og pipar
- smá cayenne pipar
- 2 stórir laukar, smátt saxaðir
- 1 stór hvítlauksgeiri, marinn
- 2 msk tómat púrre
- 4 msk vatn (fyrir púrre-ið)
- 1 og 1/4 bolli Guinness (eða bara nánast allt úr stórri dós, ég mæli þetta aldrei.)
- 1 bolli gulrætur, saxaðar
- smá af timjan (ég nota alltaf þurrkað)
Aðferð:
Setjið hveiti, salt, pipar og cayenne skál og veltið kjötinu upp úr. Olía sett á pönnu.... úpps... muna að kveikja á ofninum! Stilla hann á ca 170°c... jæja, olían sett á pönnuna og kjötið látið brúnast. Svo setur maður lauk, hvítlauk, tómatpúrre og vatn saman við og blandar öllu vel saman. Næst er bjórinn og gulræturnar sett útí og blandað vel saman við. Hægt að smakka til með salti og pipar. Munið að hræra vel upp úr botninum því hveitiblandan á það til að festast þar. Næst er lok sett á pönnuna og öllu draslinu er skellt inn í ofn og látið malla þar í 2 tíma.
Gott að bera fram með þessu bakað grænmeti, t.d. sætar kartöflur og lauk og svo auðvitað kartöflustöppu. Við notum bara kartöflur, smá smjör, mjólk og pínu salt og pipar. ALLS ENGAN sykur.
Ég er mikið fyrir að prófa eitthvað nýtt og nota google óspart. Til að muna svo uppskriftirnar set ég þær á blogg: www.hveiti.blogspot.com.
Verði ykkur að góðu!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.