Spínatsalat og japanskur kjúklingaréttur

Matgæðingarnir Gunnar og Kristín. Aðsend mynd.
Matgæðingarnir Gunnar og Kristín. Aðsend mynd.

Matgæðingar í 33. tbl ársins 2017 voru þau Kristín Ingibjörg Lárusdóttir sem er innfæddur Blönduósingur og Gunnar Kristinn Ólafsson sem kemur frá Hvolsvelli. Þau eiga fjögur börn og búa á Blönduósi þar sem þau eiga Ísgel ehf. ásamt bróður Kristínar og mágkonu.  Gunnar starfar hjá Ísgel en Kristín er leiðbeinandi í Blönduskóla.

„Við höfum mikinn áhuga á því að ferðast og við rekum hjólhýsaleigu á sumrin. Við höfum bæði mikinn áhuga á matargerð og finnst okkur gaman að bjóða fjölskyldu og vinum í mat. Kjúklingasalatið er mjög vinsælt í fjölskyldunni og er oft á óskalista að hafa í matinn. Dóttur okkar finnst það svo gott að hún valdi að hafa þennan kjúklingarétt í fermingarveislunni sinni og það vakti mikla lukku,“ segja þau Kristín og Gunnar. 

RÉTTUR 1
Guðdómlegt spínatsalat

100 g waterchestnuts
1½ rauðlaukur
500 g frosið spínat (afþítt)
1 pk. púrrulaukssúpa
1 dós sýrður rjómi
3 msk majones
smá salt

Aðferð:
Byrjið á því að afþíða spínatið. Klippið það niður eins smátt og þið getið og blandið saman við, setjið síðan sýrða rjómann saman við ásamt majonesinu og blandið vel saman ásamt smá salti. Ef ykkur finnst salatið ekki nógu blautt þá setjið þið bara aðeins meira af sýrðum rjóma saman við. Salatið er mjög gott daginn eftir og jafnvel betra! Hentar vel með niðurskornu baquett-brauði, alls konar kexi og hrökkbrauði. 

RÉTTUR 2
Japanskur kjúklingaréttur

½ bolli olía
¼ bolli balsamic edik
2 msk sykur
2 msk sojasósa 

Setjið allt í pott og sjóðið saman í u.þ.b. eina mínútu. Takið af hitanum og hrærið annað slagið í á meðan blandan kólnar (til að sósan skilji sig ekki).

1 poki núðlur (instant súpunúðlur) – ekki kryddið
3-4 msk möndluflögur
1-2 msk sesamfræ 

Brjótið núðlurnar smátt niður. Ristið á þurri pönnu, byrjið á núðlunum (því þær taka lengri tíma) og bætið svo möndlum og semsamfræjum á pönna. Ath. að núðlurnar eiga að vera stökkar. Leggið til hliðar.

kjúklingabringur 
sweet hot chillisósa

Skerið kjúklingabringurnar í strimla og snöggsteikið í olíu. Hellið sweet chillisósu yfir og látið sjóða við vægan hita um stund.

salatpoki eða iceberg salat
kirsuberjatómatar
mango
rauðlaukur 

Skerið niður og setjið í botninn á fati. Stráið ristuðu núðlublöndunni yfir, hellið svo balsamicsósunni yfir og að lokum er kjúklingaræmunum dreift yfir.

RÉTTUR 3
Oreo-og karamellu-súkkulaðibaka

36 Oreo kökur
120 g + 120 g smjör
¼ bolli + 1 bolli rjómi
⅔ bolli púðursykur
340 g dökkt súkkulaði 

Aðferð:
Byrjið á að búa til botninn, best er að notið lausbotna kökuform. Setjið Oreo kökurnar í blandara og myljið þær vel. Bræðið 120 g af smjöri og hrærið saman við kökurnar. Hellið blöndunni í kökuformið og þjappið í botninn og upp með hliðunum á kökuforminu. Ef þið eruð með 24 cm form er óþarfi að láta deigið ná alla leið upp, ⅓ dugar. Ef formið er minna má það ná vel upp eða að minnsta kosti ⅔. Kælið botninn í að minnsta kosti 15 mínútur.

Næsta mál á dagskrá er að útbúa karamelluna. Setjið púðursykurinn og 120 g af smjöri í pott á miðlungs hita. Bræðið smjörið og hrærið því saman við púðursykurinn og hrærið stanslaust. Þegar blandan fer að sjóða er mikilvægt að hræra stanslaust í eina mínútu, takið af hitanum og hrærið saman við ¼ bolla af rjóma þar til karamellan er kekkjalaus. Látið karamelluna kólna.
Brytjið niður súkkulaðið og setjið það í skál. Hitið einn bolla af rjóma að suðu og hellið síðan yfir súkkulaðið. Hrærið saman þar til allt súkkulaðið er bráðið.

Takið botninn út úr ísskápnum, hellið karamellunni yfir botninn og hellið svo súkkulaðinu yfir karamelluna. Stráið flögusalti yfir eftir smekk. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir