Segjum matarsóun stríð á hendur!

Minestrone-súpa með beikoni. Mynd:Eldhússystur
Minestrone-súpa með beikoni. Mynd:Eldhússystur

Það var Kristín S. Einarsdóttir sem tók til í ísskápnum og leyfði lesendum Feykis að fylgjast með í 18. tölublaði Feykis 2015:
Mikið er rætt um matarsóun þessa dagana og víst er að á heimilum landsmanna og í verslunum er miklum verðmætum kastað á glæ í formi matar sem rennur út eða skemmist. Þetta verður nokkuð áþreifanlegt hjá þeim sem flokka rusl, því þá sést best að lífræni úrgangurinn getur skipt kílóum í viku hverri.

„Neyðin kennir naktri konu að spinna“ segir máltækið og eflaust er algengt að ekki sé horft í góða nýtingu á matnum fyrr en þrengir að í buddunni. Á þessum árstíma er úrvalið í frystikistum heimilanna oft farið að minnka og þá er gott að velta fyrir sér leiðum til að drýgja kjötið, kjúklinginn eða fiskinn, þannig að máltíðin verði samt sem áður saðsöm og næringarrík.
Blaðamaður gerði á dögunum nokkrar tilraunir með afganga úr ísskápnum og hvetjum við lesendur til að prófa sig áfram með gómsæta afgangarétti og senda okkur hugmyndir eða uppskriftir á feyki.is.

Fiskréttur með „öllu úr ísskápnum“

Fyrir 4-5 fullorðna

8-900 gr þorsk- eða ýsuflök
2-3 bollar hrísgrjón, soðin eftir leiðbeiningum á pakka
Afgangsostar, svo sem smurostar, rifinn ostur, rjómaostur eða Camenbert
Ef til vill það grænmeti sem til er, svo sem gulrætur, sveppir eða laukur.

Hrísgrjónin eru soðin samkvæmt leiðbeiningum á pakka. Á meðan er tilvalið að gera kartöflur, salat eða annað meðlæti klárt. – Eins og mér finnst mikilvægt að nýta matinn vel þá finnst mér líka afar mikilvægt að nýta vel tímann sem varið er í eldhúsinu. Osturinn sem nota á í réttinn er bræddur í potti á vægum hita. Ef til er afgangsrjómi nota ég hann til að þynna ostana, annars bara mjólk. Fiskflökin skorin í stykki. Hrísgrjónin eru sett í botninn á smurðu eldföstu móti, fiskinum raðað ofan á og hann kryddaður. Ég nota oftast salt og sítrónupipar. Brædda ostinum er hellt yfir og gott er að dreifa rifnum osti yfir. Bakað í ofni í um 20 mínútur við 180°C.

Naglasúpa

Fátt er saðsamara en matarmiklar súpur og þær bragðast einstaklega vel á köldum degi, en á sumrin er líka þægilegt að undirbúa þær með fyrirvara og hita upp. Oft hef ég notað t.d. Maggi Minestrone súpu eða eða Toro mexican súpu og drýgt þær með grænmeti, beikoni, kjúklingi eða öðru slíku. Á dögunum átti ég enga pakkasúpu en mikið af ferskum tómötum í ísskápnum sem voru orðnir vel þroskaðir og ekki fyrirséð að þeir nýttust. Uppskriftin sem varð til í framhaldinu var einhvern veginn svona:

Vatn og súputeningar, t.d. grænmetisteningar, eftir þörfum (smakkað til og fer einnig eftir fjölda matargesta)
8 meðalstórir vel þroskaðir tómatar
Fyllt pasta eða pastaslaufur, einnig færi vel á því að nota kuskus í þessa súpu
Ýmsar baunir (athugið leiðbeiningar á pakkningum, sumar baunir þarf að leggja í bleyti)
Grænmeti úr ísskápnum, t.d. laukur, gulrætur, hvítkál og kartöflur, skorið í teninga
Ef til eru afgangar af soðnu kjöti, kjúklingi eða soðnum fiski er upplagt að skella því út í og velja krydd í samræmi við það.

Verði ykkur að góðu!

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir