Röng uppskrift af eldglögg í Jólablaðinu
Í Jólablaði Feykis skolaðist eitthvað til í uppskrift Christine Hellwig að eldglöggi og rangar upplýsingar gefnar upp í hráefnum. Í 46. tbl. Feyki birtist eldglöggið aftur með von um að ekki hafi farið illa hjá neinum áhugasömum glöggara.
Eldglögg (þ. feuerzangenbowle)
- 2 l þurrt rauðvín
- 2 appelsínur
- 1 sítróna
- 5 negulnaglar
- 2 kanilstangir
- 1 sykurkeila (250 gr sykurmolar)
- Um 300 ml romm (að minnsta kosti 54% að styrkleika)
Eldglögg er skemmtileg útgáfa af jólaglögg, margir hafa prófað hana á jólamörkuðum í Þýskalandi en tiltölulega einfalt er að búa þetta til heima hjá sér. Hugmyndin er að bræða sykur og láta hann renna ofan í og blandast við heitt rauðvínið.
Best er að byrja í eldhúsinu með venjulegum potti. Skerið hálfa appelsínu og hálfa sítrónu í þunnar sneiðar en pressið safann úr afganginum í pottinn. Setið rauðvín, negul, kanilstangir, ávaxtarsafann og ávaxtasneiðar í pottinn og hitið (má ekki sjóða). Þegar lögurinn er orðinn heitur á að færa hann fram í stofu á standara fyrir fondupott, kveikið á brennaranum svo rauðvínið kólni ekki.
Næst þarf að leggja götótt málmstykki yfir pottinn (sjá skýringarmynd). Í Þýskalandi er til sérstakt verkfæri sem heitir sykurtöng (þ. zuckerzange) sem er notuð í þetta, en auðvitað er hægt að nota hvað sem er, hér kemur ímyndunaraflið að góðum notum. Annars fylgir þetta áhald mörgum fondusettum. Hvað sem þið notið þá þarf bræddur sykurinn að geta lekið niður í rauðvínið.
Á málmstykkið er sett sykurkeila (þ. zuckerhut), sem er 250 gr keilulaga sykur klumpur, líkist helst risastórum sykurmola, auðvitað fæst ekki svona fínerí á Íslandi, en örvæntið ekki, hægt er að stafla sykurmolum í píramída með sama árangri. Annars er hægt er að sjá svona sykurkeilur á safni Áskaffis í Skagafirði.
Næsta skref er að gegnbleyta sykurinn með romminu, gefið ykkur góðan tíma og leyfið sykrinum að drekka í sig sterka vínið, hætta skal þegar sykurinn tekur ekki meir og rommið fer að drjúpa ofan í pottinn. Núna er gott að huga að öryggismálum, hafa eldvarnateppi nálægt og finna út hvar slökkvitækið er geymt. Kveikið á sykrinum með eldspýtu og njótið þess að horfa á bláan logann, sykurinn fer fljótlega að bráðna og leka niður í pottinn. Ef þið bætið rommi á sykurinn eftir að kveikt hefur verið upp, er öruggast að gera það með ausu úr stáli, það er alltaf möguleiki á sprengingu ef hellt er beint úr rommflöskunni.
Að lokum er málmstykkið fjarlægt, hrært varlega í víninu með ausu og síðan hellt í bolla. Maður er manns gaman!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.