Rjúpur og vín sem vekur bragðlaukana

Matgæðingar í Feyki þessa vikuna eru Helga Gígja Sigurðardóttir þjónustufulltrúi hjá Vís á Sauðárkróki og Jón Sveinsson Ríkisstjóri. Þau ætla að bjóða upp á girnilegar rjúpur í for- og aðalrétt og sætan eftirrétt. Jón segir hvaða vín hentar best með hverjum rétti. Þau skora á Helga Sigurðsson og Hrund Pétursdóttur til að taka við keflinu. Í blaðinu stendur í aðalréttaruppskrift að hamfletta eigi rjúpurnar sem er ekki rétt heldur á að reyta og svíða þær.

„Ég mundi fá mér þurrt sérry í fordrykk, t.d. Gonzalez Byass Tio Pepe Fino en fleirum mundi henta að fá sér þurrt freyðivín, s.s. Veuve Clicquot Ponsardin Brut eða Bollinger Brut Special Cuvee. Passa verður hitastig á öllum vínum til að allir bragðeiginleikar vínsins komi fram. Þurrt vín er gott sem fordrykkur því sýran vekur bragðlaukana og kemur meltingunni af stað. Sumum mundi blöskra verðið en hafa skal í huga að þetta er ekki hverdagsmatur sem kostar lítið.“

Forréttur
Fyllt rjúpuhjörtu

  • rjúpuhjörtu
  • gráðostur eða piparostur
  • portvín

Aðferð:
Uppskrift fyrir fjóra. Hreinsið hjörtun að innan og fyllið þau með gráðosti/piparosti hvort sem ykkur finnst betra og látið hjörtun standa í portvíni a.m.k.6 klst. áður en þau eru steikt í ofni við 200°C í um 15 mín. Gott er að steikja hjörtun með portvíninu sem eftir er í fatinu og bera fram með góðu salati. Með hjörtunum hentar portvín, t.d. Graham's 10 ára Tawny og nota sama vín og hjörtun eru marineruð uppúr.

Aðalréttur
Fylltar rjúpur

  • rjúpur
  • beikon
  • brauð
  • sveskjur
  • rjómi
  • sjávarkrydd
  • piparblanda

Aðferð:
Uppskrift fyrir fjóra. Rjúpur reyttar og sviðnar. Fyllið rjúpurnar með beikoni, brauði, sveskjum og rjóma og kryddið vel með sjávarkryddi. Rjúpurnar fylltar vel og kryddaðar með piparblöndu. Steiktar í ofni á 200°C þar til þær eru orðnar stökkar að utan eftir um 50 mín. Borið fram með rjómasósu eða brúnni sósu. Með fylltu rjúpunum væri gott að hafa vín frá Rhone td M. Chapoutier Chateauneuf-du-Pape La Bernardine eða E. Guiga Chateauneuf-du-Pape.

Eftirréttur
Ávextir dýfðir í súkkulaði

Aðferð:
Eftirrétturinn er einfaldur bræðið saman mars eða annað gott súkkulaði og smá rjóma. Borið fram með allskonar ávöxtum og dýfið í súkkulaðið um leið og þið borðið. Mörgum finnst gott að fá sér sætt á eftir veislumat sem þessum, t.d. súkkulaði eða ís. Þá væri ekki verra að gæða sér á góðu sætvíni með, best finnst mér gott sauternes vín eins og t.d. Chateau Guiraud.

Verði ykkur að góðu!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir