Rækjur, kjúklingabringur og myntudraumur.

Það eru þau Sólveig Arna Ingólfsdóttir og Andrés Geir Magnússon á Hellulandi í Hegranesi sem gefa lesendum Feykis.is kost á að galdra fram veislu á auðveldan hátt. Þau voru í 34 tbl. Feykis árið 2008 og skoruðu þau á  Kolbrúnu Jónsdóttir og Þröst Jónsson á Sauðárkróki að koma með uppskrift að tveimur vikum liðnum.

 

 

Rækjur með melónum   (Forréttur)

500 gr. rækjur

  • ½ hunangsmelóna, skorin í litla bita
  • 200 gr. sýrður rjómi
  • 2-3 msk. mayonnaise
  • Salt og pipar
  • Örlítill sykur
  • 1-2 tsk. dijonsinnep
  • Sítrónusafi
  • Aromat krydd
  • Sítróna, tómatur, agúrka og steinselja til skrauts

 

 

Hrærið saman sýrðum rjóma og majonesi, kryddið með sinnepi, salti, pipar, sykri, aromat og sítrónusafa. Blandið saman rækjum og melónu og skiptið í sex skálar, hellið sósu yfir hverja skál og skreytið með sítrónubátum, tómötum, agúrku og steinselju. Berið fram með ristuðu brauði.

 

 

Kjúklingabringur í piparostasósu   (Aðalréttur)

  • 4 kjúklingabringur
  • Kjúklingakrydd
  • 4 sn. Lúxusbeikon
  • 200 gr. sveppir
  • 150 gr. Gouda ostur
  • ½ piparostur

 

Bringurnar eru steiktar á pönnu (ca. 3 mín. á hvorri hlið) Kryddaðar og settar í eldfast mót. Sveppir og beikon er léttsteikt. Helmingnum af ostinum er stráð yfir bringurnar og sveppunum dreift yfir. Beikonið lagt þar ofan á og að lokum er afganginum af ostinum stráð yfir. Þetta er síðan sett í ofn í ca. 10-15 mín. við 200 °c

 

Piparostasósa

  • ½ l. matreiðslurjómi
  • 1 ½ piparostur

 

Rjóminn er hitaður í potti,  osturinn brytjaður út í og hrært í þar til sósan er orðin kekkjalaus. Borið fram með pönnusteiktu grænmeti, fersku salati, kartöflubátum og piparsósu.

 

 

Myntudraumur   (Eftirréttur)

  • 1 dl. rjómaostur
  • 2 stk. egg
  • 8-10 msk. flórsykur
  • 1-2 tsk. vanilludropar
  • 200 gr. suðusúkkulaði
  • ½ l. rjómi
  • 10-12 plötur After eight

 

 

Rjómaosturinn er hrærður vel þar til hann verður kekkjalaus. Eggin þeytt vel ásamt flórsykri og vanilludropum. Best er að þeyta eggjarauðu og hvítu í sitthvoru lagi og blanda þeim síðan saman. Eggjahrærunni er blandað saman við ostinn, súkkulaðið brætt og því hellt smátt og smátt út í, á meðan hrært er. After eight plöturnar eru brytjaðar og settar út í. Rjóminn stífþeyttur og honum blandað varlega saman við allt. Að lokum er þetta sett í skál eða fat og fryst í 4-5 klst.

 

Verði ykkur að góðu!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir