Ostrusósulegið folaldakjöt með hvítlaukssveppum og bernessósu

Nú eru það Auðbjörg Ósk Guðjónsdóttir og Guðberg Ellert Haraldsson, á Sauðárkróki sem gefa okkur aðgang að gómsætum uppskriftum sem fá bragðlaukana til að svitna.

Tortilla snúðar
Virkar vel við öll tækifæri.

  • ½ Maribo ostur
  • 200 gr sýrður rjómi
  • u.þ.b. 5 cm bútur af blaðlauki
  • 400 gr rjómaostur
  • 2 – 3 pakkar af tortillakökum

Öllu er mixað saman í matvinnsluvél nema tortillakökunum.  Blöndunni er smurt á tortillakökurnar deginum áður en kökunum er rúllað upp.  Lengjurnar eru skornar niður í 1 cm búta daginn sem það er borið fram og borðað með salsa sósu.

Ostrusósulegið folaldakjöt með hvítlaukssveppum og bernessósu

  • 800 gr folaldakjöt
  • 1 dl ostrusósa
  • Hvítlaukspipar
  • 3 msk olía til steikingar

Kjötið er skorið í u.þ.b.1 cm þykkar sneiðar, ostrusósunni er svo smurt á kjötið og kryddað með hvítlaukspipar. Þetta er látið standa a.m.k. í 1 klst. Kjötið er steikt á pönnu í 3-4 mín.  Þegar það er allt steikt er það sett inn í ofn í eldföstu móti til að halda því heitu.

Hvítlaukssveppir

  • 400gr sveppir
  • 5 - 10 stk. hvítlauksrif eftir smekk
  • 3 msk matarolía til steikingar
  • Salt og pipar

Hvítlaukurinn er saxaður.  Hann er steiktur ásamt niðurskornum sveppunum á pönnu og kryddaður með salti og pipar eftir smekk.  Sveppirnir eru lagðir yfir kjötið og sett aftur inn í ofn.

 

Bernessósa

Sósan er gerð eftir upplýsingum á pakka. Vökvanum af kjötinu og sveppunum er sett út í sósuna. Kryddað er aukalega með estragon, salti og pipar eftir smekk. Þykkið ef þurfa þykir. Sósunni er svo að lokum hellt yfir kjötið og sveppina og borið þannig fram.

 

Meðlæti 

Gott getur verið að hafa:

  • Kartöflur
  • Salat eða soðið grænmeti

Þriggja súkkulaði brownies frá henni Nigellu

  • 350 gr ósaltað smjör
  • 340 gr bittersweet súkkulaði (70%)
  • 6 egg
  • 4,375 dl sykur
  • 1 matskeið vanilludropar
  • 3,75 dl hveiti
  • 1 tsk salt
  • 1,25 dl hvítir súkkulaðidropar
  • 1,25 dl ljósir súkkulaðidropar
  • 2 teskeiðar flósykur til að setja yfir til skrauts

Ofninn er hitaður í 180°C. Bræða skal saman smjörið og dökka súkkulaðið í þykkbotna pönnu við lágan hita. Þeyta skal saman eggjunum, sykrinum og vanilludropunum.

Súkkulaðiblöndunni er leyft að kólna lítilega, eggjablöndunni bætt út í og hrært vel en rólega.

Hveitinu og saltinu er blandað rólega saman við.  Hvítu súkkulaðidropunum og brúnu súkkulaðidropunum er bætt við blönduna og hrært rólega þar til allt hefur blandast. Að lokum er blandan sett í bökunarform/skúffu inn í miðjan ofninn. Þetta skal bakast í u.þ.b. 25 mín en það má sjá hvenær kökurnar eru til á því að yfirborðið þornar og verður fölbrúnt á meðan miðjan er dökkbrún og mjúk. Skerið kökuna í bita á meðan hún er enn heit og raðið á stórt fat, skreytið með því að sigta flósykurinn yfir kökuna á fatinu. Frábært er að bera ís fram með volgum kökunum.

Verði ykkur að góðu

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir