Öðruvísi uppskriftir sem kitla bragðlaukana

Að þessu sinni eru það Aðalbjörg Vagnsdóttir og Kristján Alexandersson sem gefa okkur uppskriftir vikunnar. Öðruvísi beikon og egg, fiskur steiktur í snakki og slompaðar pönnukökur m/ís, berjum og sósu er það sem gildir þessa vikuna.

 Forréttur
Öðruvísi beikon og egg

  • 1 stórt bréf beikon
  • 6 egg harðsoðin og söxuð
  • 1 dl púrrulaukur smátt saxað
  • 2 dl majones
  • 1 dl sýrður rjómi
  • ½ tsk sítrónupipar + salt eftir smekk
  • 2 tsk worchestersósa
  • 3 tsk sinnep
  • 2 msk graslaukur
  • 50 gr möndluspænir, ristaðar á pönnu
  • Gott að setja smátt söxuð vínber útí

Steikið beikon og brjótið í litla bita, sett í skál ásamt púrru og eggjum. Blandið saman majonesi, sýrðum rjóma, sósu, sinnepi og öllu kryddi. Blandið saman við beikonið og eggin og laukinn. Setjið möndluflögurnar síðast og vínber ef vill. Láta standa í kæli í 2 tíma. Borið fram með ristuðu brauði.

Aðalréttur
Fiskur steiktur í snakki

  • 4 ýsuflök eða skötuselur
  • 1 poki Bugles venjulegt, mulið
  • ½ poki paprikuskrúfur, muldar
  • 2 msk heilhveiti
  • 2 msk laukur, smátt saxaður (má sleppa)
  • 3 tsk aromat
  • 2 tsk graslaukur, þurrkaður
  • 2 egg, smá mjólk og sinnep pískað saman
  • Olía til steikingar

Skerið fisk í hæfilega bita. Blandið saman snakki, hveiti og öllu kryddi. Dýfið fiskinum í eggjablönduna og veltið upp úr snakkblöndunni. Steikið á pönnu í c.a. 4 mínútur á hvorri hlið. Má setja í heitan ofn í smá stund. Frjálst meðlæti.

Eftirréttur
Slompaðar pönnukökur m/ís, berjum og sósu

  •  130 gr hveiti
  • 1 msk sykur
  • 1 tsk salt
  • 100gr suðusúkkulaði
  • 5 dl mjólk
  • 2 egg

Súkkulaði og mjólk brætt saman. Blandið öllu hinu saman við. Steikt á venjulegan hátt. Setjið 1 dl af Grand Mariner yfir ber af eigin vali, látið standa í c.a. 1 klst.

Sósa

  • 10 stk bombur
  • 10 stk Freyju karamellur
  • 100gr súkkulaði
  • 2 dl rjómi

Bræðið allt saman í potti. Setjið ís inn í pönnukökurnar, brjótið saman og berið fram með berjunum og heitri sósunni. Dúndur gott!!

Verði ykkur að góðu!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir