Mjólkurfræðingurinn mælir með osti, rjóma og smjöri

Nú fáum við að njóta uppskrifta frá Aðalheiði Hallmundsdóttur og Hilmars Baldurssonar á Sauðárkróki. Þar sem Hilmar er mjólkurtæknifræðingur að aðalstarfi, aðhyllist öll eldamennska hjá honum að hráefni úr heimabyggð og þá sérstaklega osti, rjóma og smjöri. Þau Aðalheiður og Hilmar voru matgæðingar Feykis seint á árinu 2008 og þau skoruðu á Rúnar Símonarson og Sólveigu Fjólmundsdóttur á Sauðárkróki að koma með uppskriftir að tveimur vikum liðnum.

 

Forréttur
Mosarella snittur.

  • 1 fransbrauð í sneiðum
  • 1 bréf parmaskinka
  • 1 stór mozzarella kúla
  • Fersk basilica
  • Olivu olía
  • Salt og pipar

 

Til steikingar.

  • 1 egg
  • ½ dl mjólk
  • Hveiti.

Skerið hringi út úr brauðsneiðunum með glasi. Bleytið lítilega í brauðhringjunum með ólívu olíunni. Kryddið með saltinu og piparnum eftir smekk. Skerið mozzarellukúluna í sneiðar, raðið saman brauði, parmaskinku, mozzarellusneið, basilica lauf og aftur brauð. Búið til eins margar svona litlar samlokur og matargestirnir eru. Pískið saman eggi og mjólk. Takið litlu samlokurnar sem þið eruð búin að búa til og veltið þeim upp úr eggjahrærunni svo hveitinu og aftur eggjahræruni og steikið á pönnu á hvorrihlið. Raðist í eldfast mót og hitist í ofni rétt áður en borið skal fram.

 

Aðalréttur.
Hryggvöðvi  með rjómaostasveppasósu

  • Hryggvöðvar úr skagfirsku lambi.
  • Lambakjötskrydd frá Prima
  • McCormick montreal steak krydd
  • Olivu olía

Hryggvöðvarnir eru snyrtir eins og hver og einn óskar (með eða án fiturandar), kryddaðir og látnir liggja í marineringunni í 4-6 daga inni í kæli. Kjötið er svo annað hvort hægt að léttsteikja á pönnu, þar til það er orðið létt brúnað á hvorri hlið, og klára steikinguna í ofni, í 15-20 mín,  eða grilla, og þá sérstaklega í góðra vina hópi á sumrin, eftir smekk. Með þessu berum við fram kartöflur eftir smekk, allar þær tegundir af fersku salati sem við kunnum og rjómaostasveppasósu.

 

Rjómaostasveppasósa. 

  • Einn bakki sveppir
  • 50g smjör
  • Einn steyptur piparostur
  • ½-1 lítri rjómi
  • 1-2 Hong sósuteningar
  • 1-2 tsk sýróp

Sveppirnir eru skornir í sneiðar og brúnaðir upp úr bræddu smjörinu á meðan er osturinn bræddur í helmingnum af rjómanum. Sveppum og ostabræðingnum blandað saman og restin af rjómanum bætt við. Sósuteningunum bætt út í, eftir smekk hve mörgum. Að lokum er sett sýróp í og það er líka smekksatriði svo endilega smakka sig áfram. Ef þið viljið sósuna þykkari þá bara um að gera að skella sósujafnara útí.

 

Eftirréttur
Eplakaka sælkerans.
Botn.

  • 1 dl haframjöl
  • 100 gr hveiti
  • 85 g sykur
  • 125 g smjör

Öllu blandað saman og hnoðað. Deginu er svo þrýst inn í 24 cm eldfast hringform og bakað í 10 mín. við 200 gráðu hita. Eða þar til botninn verður gullinn.

 

Fylling.

  • 4 epli
  • 100 g brætt smjör
  • 150 g sykur
  • 2 msk hveiti
  • 2 ½ dl rjómi
  • 1 tsk kanill
  • 100 g möndluflögur

Eplin eru skræld,  kjarnhreinsuð og skorinn í vænar sneiðar, þeim er svo raðað í forbakaðan botninn. Smjör, sykur og hveiti er soðið saman í 2-3 mínútur og rjómanum svo hellt út í. Þegar blandan hefur jafnað sig er kanilnum og möndluflögunum bætt út í. Allri blöndunni er svo hellt yfir eplin og kakan bökuð í ca 30 mín við 150 gráðu hita. Kakan er svo borinn fram með rjóma og/eða ís.

Verði ykkur að góðu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir