Matgæðingur vikunnar - Gúllassúpa og gerbollur
Það er Árni Geir Sigurbjörnsson sem er matgæðingur vikunnar, tbl 6 2022, að þessu sinni en hann er fæddur og uppalinn á Sauðárkróki. Konan hans, Katla Gísladóttir, á einnig rætur að rekja í Skagafjörðinn en er uppalin á Suðurlandi. Þau eiga saman tveggja ára tvíburastelpur, Hildi Ingu og Telmu Rún. Árni Geir starfar sem smiður og Katla vinnur hjá Mannvit og starfar við brunahönnun.
“Ég er ekki mikið í eldhúsinu en tel samt að ég geti reddað mér þegar á reynir. Uppskriftirnar koma því úr uppskriftabókum Kötlu,” segir Árni.
AÐALRÉTTUR
Gúllassúpa
U.þ.b. 1 kg gúllas
2 hvítlauksrif
2 laukar
3-4 bökunarkartöflur
4 gulrætur
1 rauð paprika
2 dósir niðursoðnir tómatar
1 tsk. paprikukrydd
1 tsk. kúmen
1 teningur nautakjötskraftur
vatn eftir þörfum
salt og pipar eftir smekk
Aðferð: Byrjið á að skera gúllasið í litla bita. Brúnið kjötið og kryddið með salti og pipar. Skerið lauk og hvítlauk og bætið saman við kjötið. Bætið vatni við og sjóðið í u.þ.b, 40 mín. Setið niðursoðna tómata saman við ásamt paprikukryddi, nautakjötskrafti og kúmeni. Skrælið kartöflur og gulrætur, skerið í bita ásamt paprikunni og bætið í pottinn. Látið sjóða í u.þ.b. 30 mín. Lækkið hitann og látið súpuna malla í a.m.k. 1 klst. Því lengur því betra. Súpan smakkast enn betur upphituð daginn eftir. Ómissandi með gúllassúpunni eru nýbakaðar gerbollur með smjöri og osti.
MEÐLÆTI
Gerbollur
400 g hveiti
200 g heilhveiti
1 bréf þurrger
1 egg
2 msk. sykur
4 msk. olía
4-5 dl mjólk og vatn (volgt)
Aðferð: Blandið saman mjólk og vatni í skál og setjið þurrger saman við. Bætið við sykri, eggi og olíu og hrærið. Setjið hveiti og heilhveiti saman við og hrærið og hnoðið. Látið hefast í u.þ.b. 40 mín. Mótið bollur úr deiginu og látið hefast í 20 mínútur til viðbótar. Penslið með þeyttu eggi og bakið í 12-15 mín. við 200°C.
Verði ykkur að góðu!
Árni Geir skorar á æskuvin sinn Þröst Magnússon í Myndun.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.