Léttari réttir
Björg Þorgilsdóttir og Magnús Ólafsson á Blönduósi áður Sveinsstöðum voru matgæðingar Feykis í ársbyrjun 2008. Þau buðu upp á létta rétti sem hægt er að hafa á borðum hvenær sama hver árstíminn er.
Rækjuréttur
Í forrétt má hafa rækjurétt, sem ýmist er borinn fram heitur eða kaldur.
- 400 gr. rækjur
- 300 gr. majónes
- 1 msk. Provencale frá Knorr
- 2 tsk. karrý
- 1 græn paprika, söxuð
- 1 rauð paprika, söxuð
- 2 bollar soðin hrísgrjón
- ¼ dós maísbaunir.
Eigi að nota réttinn kaldan er uppskrift hér lokið. Majónes og krydd hrært saman, svo er öðru blandað út í. Þetta er borið fram með ristuðu brauði, smjöri og sósu. Í sósuna er sett eftirfarandi:
- 300 gr. majónes
- 1 msk. hunang
- ½ msk. sinnep
- Dill eftir smekk.
- Þessi sósa er líka mjög góð með graflaxi. Ef bera á rækjuréttinn fram heitan er hann einnig borinn fram með ristuðu brauði og sömu sósu. Þá er eftirfarandi bætt við uppskriftina:
- ¼ - ½ dós sveppir
- 1-2 dl. rjóma hellt yfir
- Ostur.
Soðnu hrísgrjónin sett í eldfast mót. Majónes og krydd hrært saman. Rækjum, sveppum, papriku og maísbaunum blandað út í og þetta sett ofan á hrísgrjónin. Rjómanum hellt yfir og rifnum osti stráð þar ofan á. Bakað í ofni við 180 ° C hita þar til osturinn er farinn að brúnast.
Steiktur lax í ofni eða á grilli
Það er mjög vinsælt hjá erlendum ferðamönnum þegar við bjóðum upp á snöggsteiktan lax eða silung. Þegar kynbótasýning íslenskra hrossa var í fyrsta sinn haldin í Bandaríkjunum fórum við nokkrir Húnvetningar þangað vestur. Þar buðum við í veislu og var m.a. grillaður silungur, sem við höfðum meðferðis. Í mörg ár á eftir þekktu bandarískir hestaáhugamenn okkur sem fólkið sem bauð upp á þennan dásamlega fisk þarna vestur í Tulsa um árið. Flök, lax eða silungur. Magn eftir því hvað margir eru í mat. Flökin skorin í stykki, sett í ofnskúffu, sem smurð er með matarolíu. Kryddað með fiskikryddi frá Knorr og sítrónu. Bakað í ofni við 180° C hita í ca. 10 mín. Gott að hafa skúffuna ofarlega í ofninum. Ef þetta er sett á grillið fylgist með hvenær flökin fara að hvítna. Ekki steikja of mikið. Borið fram með soðnum kartöflum, tómötum og agúrkum.
Fiskisúpa að hætti Bjargar
Þessi súpa er matarmikil og ávallt vinsæl hvort sem er innan fjölskyldunnar eða hjá gestum.
- 6-800 gr. lúða eða ýsa
- 7 dl. mysa
- 5 dl. vatn
- 1 tsk. salt
- Sellerí
- Blaðlaukur (púrra)
- 4 gulrætur
- 1 laukur meðalstór
- 70 gr. smjör
- 1 tsk. karrý
- 2 msk. hveiti
- ¼ tsk season all
- 1 teningur fiskikraftur knorr
- 1 pl. rjómi
- 3 eggjarauður
- Rækjur, ca 200 gr. og/eða
- hörpudiskur og humar.
Sjóðið fiskinn stutta stund í blöndu af vatni, mysu og salti. Sellerí, laukur og púrra saxað niður og gulræturnar skornar í þunnar sneiðar. Smjörið er brætt í potti og grænmeti látið krauma þar í nokkrar mínútur. Því næst fer karrýið saman við. Hveitinu síðan stráð yfir grænmetið í pottinum og bakað upp með fiskisoðinu. Bragðbætt með fiskikrafti og season all. Rjómanum hellt saman við og súpan er hituð að suðu. Hrærið eggjarauðurnar saman í skál og jafnið súpunni út í, varlega í byrjun. Súpunni hellt aftur yfir í pottinn og allur fiskurinn settur saman við. Hitið þannig að fiskurinn verði vel heitur en súpan má alls ekki sjóða. Með súpunni er mjög gott að hafa gróft brauð og smjör.
Amerískur kjötréttur
Fljótlegur og góður kjötréttur, ávallt vinsæll á okkar heimili.
- 1 kg. kjöthakk
- 1 bolli haframjöl
- 1 bolli tómatssósa
- ¾ bolli saxaður laukur
- 2 tsk. salt
- 2 stk. egg
- ¾ tsk. pipar.
Þetta er allt hrært í hrærivél. Síðan sett í eldfast mót með loki. Bakað í ofni við 180 °C í 1 klst. Bjóðið með þessu brætt smjör og setjið blaðlauk eða graslauk útí.
Verði ykkur að góðu
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.