Lambahryggur með kryddhjúp og Hindberjagums

Dagný Stefánsdóttir og Róbert Logi Jóhannsson á Laugamýri í Skagafirði voru matgæðingar vikunnar í 20. tölublaði Feykis árið 2015. Þau buðu lesendum upp á girnilegar uppskriftir af lambahrygg með kryddhjúp og Hindberjagumsi í eftirrétt, væntanlega meira og minna úr eigin framleiðslu. „Ég kann ekkert á skammta ég dassa alltaf þannig að þetta er bara einhvern veginn svona,“ segir Dagný. 

AÐALRÉTTUR

Lambahryggur með kryddhjúp 

Kryddhjúpur:

2 brauðsneiðar
1 búnt steinselja
1 búnt kóríander
1 búnt timjan
3 greinar af rósmarín
sletta af matarolíu
rifinn parmesanostur (ekki nauðsynlegt) 

Aðferð:
Takið allt efni í kryddhjúp og setjið í matvinnsluvél og maukið. Hryggurinn er aðeins saltaður, einnig gott að smyrja hrygginn með sinepi en það er smekksatriði. Síðan er hjúpnum smurt á, hryggurinn settur í ofnpoka og eldaður þannig eftir smekk, en pokinn tekinn af síðustu 15 mín. til að hjúpurinn verði stökkur og brakandi.

Borið fram með sveppasósu, grilluðum sætum kartöflum, venjulegum kartöflum, og fersku salati.
 

EFTIRRÉTTUR

Hindberjagums 

Hindber
grísk jógúrt
rjómi
flórsykur
kanelkex 

Súkkulaðimús

1 plata suðusúkkulaði
4 after eight plötur
3 eggjarauður
4 msk flórsykur
rjómi

 Aðferð:

Þeytið saman eggjarauðum og flórsykri. Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði og kælið dálítið. Hrærið súkkulaðinu saman við eggin og flórsykurinn, hrærið svo varlega þeyttum rjóma út í og smakkið til.
Grískri jógúrt og þeyttum rjóma hrært saman, ásamt flórsykri eftir smekk. Kanelkex mulið niður og sett í botninn á glösum eða hverju sem fyrir verður. Hindberin maukuð og sett lag yfir, síðan er grískri jógúrt og rjómamixi skellt yfir og þar næst súkkulaðimúsinni. Að sjálfsögðu er hægt að gera mörg lög.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir