Krakkarnir kalla þetta gjarnan “Subway” kökurnar
Það er Helga Ólína Aradóttir sérkennari á Skagaströnd sem bauð lesendum Feykis til veislu í janúar 2009 og segir: -Þar sem margir eru nú að spá í línurnar eftir jólin koma hérna uppskriftir sem ættu að geta talist vera í hollari kantinum. Svolítinn undirbúning þarf fyrir pönnukökurnar en vonandi er hann þess virði. Síðan er uppskrift að salati og hollum spelt ostabollum. Að lokum læddi ég með uppskrift sem ég er oft beðin um en óhætt er víst að segja að hún falli ekki undir flokkinn “hollar” uppskriftir.
Fylltar kjúklingakarrýpönnukökur (crepes)
Pönnukökudeig
- 4 dl hveiti
- 1 tsk salt
- ½ tsk lyftiduft
- 4 dl mjólk
- ½ matarolía
- 2 egg
- 2-3 dl vatn
Þurrefnin sett í skál, mjólk og matarolíu hrært saman við. Eggjunum bætt út í og hrært vel. Vatninu er síðan bætt í smátt og smátt þar til deigið verður fremur þunnt. Útbúin er venjuleg karrýsósa en höfð í sterkara lagi. Einnig er hægt að nota eftirfarandi sósu.
Karrýsósa
- 50 gr smjör
- 1 pk Toro karrýsósa
- 1-2 msk karrý (eftir smekk)
- ½ ltr vatn (gæti þurft aðeins meira)
Smjörið er brætt, duftinu ásamt karrýi hrært saman við. Vatninu bætt við smátt og smátt þar til hæfilega þunn sósa er tilbúin.
Fylling
- 1 paprika – skorin í bita
- 1 blaðlaukur – skorinn í bita
- Soðin hrísgrjón
- Kaldur kjúklingur (gott að nota kjúklingaafganga)
- Ostsneiðar
Aðferð:
Deigi er hellt á stóra pönnu og þegar yfirborðið fer aðeins að þorna/bakast er karrýsósu smurt yfir alla pönnukökuna. Því næst eru hrísgrjón sett á helminginn af kökunni, paprika og blaðlaukur þar ofan á ásamt kjúklingnum og síðast eru ostur settur yfir allt saman. Að lokum er helmingurinn, sem aðeins er með sósu á, settur yfir þ.e. útbúinn hálfmáni. Bakað áfram í örlitla stund. Best er að snúa hálfmánanum aðeins við þannig að báðar hliðar bakist vel og osturinn nái að bráðna. Gott eitt og sér eða með fersku salati. Auðvelt er að skipta út kjúklingnum fyrir t.d. skinku, ananas og þá er upplagt að setja hvítlaukssósu í stað karrýsósunnar.
Pastasalat
Iceberg eða jöklasalat ½ haus – rifið niður frekar gróft
- 2-3 tómatar skornir í báta
- ½ rauðlaukur skorinn í sneiðar
- 1 gul paprika
- 1 rauð paprika
- Nokkur jarðarber
- 2 kiwi
- Furuhnetur – létt ristaðar
- Ostur – Havarti (ekki krydd) og Brie – skornir í bita
- 2 bollar soðið pasta
Öllu blandað saman í skál og 2 msk. Olivu olía og 1 msk. Balsamikedik hrært saman og dreift yfir.
Ostabollur
- 2 pk þurrger
- 1 ltr súrmjólk
- 200 gr hunang
- 1 msk salt
- 200 gr rifinn ostur
- 500 gr spelt
- 700 gr hveiti
Hunang og súrmjólk hitað saman í u.þ.b. 37°c. Gerið sett í fremur stóra skál og súrmjólkurblöndunni hellt yfir. Salti bætt út í og látið bíða aðeins. Hveiti, spelt og ostur sett útí og hnoðað vel saman. Látið lyfta sér í 30 mínútur. Búnar til bollur úr deiginu sem raðað er á bökunarplötu og látnar lyfta sér í ca. 20 mínútur. Penslað með blöndu af eggi og mjólk. Bakað við 170°c. Þar til þær verða ljósbrúnar.
Þessa uppskrift fann ég einhvern tímann í Gestgjafanum og hún hefur alveg slegið í gegn, sérstaklega hjá yngri kynslóðinni. Krakkarnir kalla þetta gjarnan “Subway” kökurnar.
“Súkkulaðibitahlunkar”
- 150 g smjör/smjörlíki
- 200 g púðursykur
- 50 g sykur
- 1 pakki Royal vanillubúðingsduft
- 1 tsk. vanillusykur
- 2 egg
- 270 g hveiti
- 1 tsk. matarsódi
- 1 poki súkkulaðidropar
Hrærið smjöri, púðursykri, sykri, vanillusykri og búðingsdufti mjög vel saman. Eggjum bætt í, einu í einu, hrært vel á milli. Hveiti, matarsódi og súkkulaði hrært saman við en ekki hræra lengi, deigið á að verða samfellt. Ein kúfuð matskeið (líka gott að nota ískúlu skeið) af deigi sett á plötu sem er klædd bökunarpappír og bakað í 12 – 14 mínútur við 180°c. Kökurnar eru bakaðar ljósbrúnar. Þær lyfta sér töluvert og falla svo þegar þær eru teknar úr ofninum. Eiga að vera frekar linar. (Eiga að verða u.þ.b.24 kökur, fer eftir stærð)
Verði ykkur að góðu
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.