Kjúklingasúpa og guðdómlegt gums

Matgæðingar í tbl 43, 2020. Sigga og Dóri. MYND: AÐSEND
Matgæðingar í tbl 43, 2020. Sigga og Dóri. MYND: AÐSEND

Sigríður Stefánsdóttir og Halldór G. Ólafsson, sem búa í Sænska húsinu á Skagaströnd, voru matgæðingar vikunnar í tbl 43, 2020. Sigríður, eða Sigga hjúkka eins og hún er oftast kölluð af samborgurum sínum, er hjúkrunarfræðingur hjá HSN og vinnur á heilsugæslunni þar sem hún hefur fylgt fólki bókstaflega frá vöggu til grafar. Halldór, sem oftast er kallaður Dóri, er menntaður sjávarútvegsfræðingur en starfar nú sem framkvæmdastjóri BioPol ehf.

Sigga er uppalin í Ólafsvík en Dóri er fæddur og uppalinn á Skagaströnd. Þau kynntust þegar Sigga stundaði nám sitt í Háskólanum á Akureyri. Þau hafa að mestu leyti búið á Ströndinni fögru frá árinu 1998 en með tveggja ára dvöl í Norður-Noregi á árunum 2001-2003. Dóri þykist líka vera trillukarl í frístundum á sumrin og hefur jafnframt tekið að sér samfélagsverkefni á Skagaströnd sem oddviti Sveitarfélagsins Skagastrandar. Þau hjónakornin eiga eina dóttur og tvo syni sem öll eru við það að fljúga úr hreiðrinu. Sigga og Dóri eiga sameiginlegt áhugamál sem er kórsöngur sem hefur á síðustu misserum þróast út í kvartettsöng með góðum vinum á Ströndinni.

AÐALRÉTTUR

Kjúklingasúpa

olía til steikingar

3 hvítlauksrif

1 púrrulaukur

2 rauðar paprikur

1 græn paprika

300 g rjómaostur

1 flaska Chili sósa

0,5l matreiðslurjómi

2-300 ml vatn

1-2 msk. karrý

2 teningar kjúklinga/grænmetiskraftur

salt og pipar

kjúklingabringur eftir efnum og aðstæðum.

Aðferð:

Kjúklingur skorinn í bita og steiktur. Grænmeti skorið og steikt. Chili sósa, rjómaostur og krydd sett í pott og suðan látin koma upp. Grænmeti bætt út í og látið malla. Rjóma, vatni og kjúklingi bætt út í.

Þetta látið sjóða við lágan hita í 30 mínútur, að minnsta kosti. Gott að bera fram með hrísgrjónum og hvítlauksbrauði.

EFTIRRÉTTUR

Guðdómlegt gums

4 eggjahvítur

200 g sykur

sett í skál og stífþeytt

100 g suðusúkkulaði

½ bolli döðlur

½ bolli salthnetur

½ tsk. lyftiduft

Aðferð:

Súkkulaði, döðlur og salthnetur saxaðar saman og þetta blandað varlega við stífþeyttu blönduna ásamt lyftiduftinu. Þessu skipt upp og sett í tvö hringlaga form og bakað við 150°C í 30-40 mínútur. Botnunum leyft að kólna áður en þeyttur rjómi er settur á milli botnanna og ofan á. Súkkulaðirúsínur og salthnetur stráðar yfir rjómann sem skraut.

Verði ykkur að góðu

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir