Humarpizza og súkkulaðimús

Ásdís Adda og Sigurgeir Þór ásamt sonum sínum. Aðsend mynd.
Ásdís Adda og Sigurgeir Þór ásamt sonum sínum. Aðsend mynd.

Ásdís Adda Ólafsdóttir, sjúkraþjálfari og Sigurgeir Þór Jónasson, rafmagnsverkfræðingur  voru matgæðingar vikunnar í 35 tbl. FEkis 2018. Þau búa á Blönduósi ásamt sonum sínum tveimur, þeim Arnóri Frey og Ísari Val en þangað fluttu þau árið 2017 eftir níu ára búsetu í Danmörku við nám og störf.
„Við ætlum að deila með ykkur uppskrift af humarpizzu sem er í algjöru uppáhaldi og fljótlegri og góðri súkkulaðimús í eftirrétt,“ sögðu þau.

AÐALRÉTTUR
Humarpizza
Ef pizzasteinn er til á heimilinu mælum við eindregið með því að nota hann.

1 skammtur pizzadeig
rjómaostur
1 dós tómatpúrra
350 g humarhalar
50 g smjör
4-5 fínt saxaðir hvítlauksgeirar
paprika, skorin niður
1 poki af rifnum mozarella osti
fersk basilika

Aðferð:
Humarinn er skelflettur og görnin hreinsuð úr, smjörið brætt og hvítlauknum bætt út í. Humarhölum velt upp úr bráðnu hvítlaukssmjörinu.
Næst er pizzadeigið flatt út, rjómaosti og tómatpúrru blandað saman í jöfnum hlutföllum og smurt á pizzabotninn. Mozarella osti stráð yfir og paprikan sett á pizzuna. Pizzan sett í ofninn og bökuð þar til hún á nokkrar mínútur eftir, þá er humrinum bætt út á og látinn bakast með síðustu mínúturnar. Ferskri basiliku stráð yfir pizzuna áður en hún er borin fram.

EFTIRRÉTTUR
Súkkulaðimús fyrir 4

100 g suðusúkkulaði
2 eggjarauður
2½ dl rjómi

Aðferð:
Súkkulaði brætt yfir vatnsbaði og látið kólna aðeins áður en eggjarauðum er hrært saman við. Hrærið þar til blandan er orðin slétt. Rjómi þeyttur létt og blandað við súkkulaðiblönduna í litlum skömmtum með sleikju þar til allt hefur blandast vel. Súkkulaðimúsin er því næst sett í fjórar skálar og látin standa í ísskáp þar til hún hefur stífnað. Borin fram með ferskum berjum og þeyttum rjóma.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir