Humar, kjúklingur og Bailey’s nougat ís

Haraldur Birgir Þorkelsson og Hrafnhildur Ýr Víglundsdóttir áttu uppskriftir vikunnar í Feyki í janúar 2010. -Eldamennska á bænum einkennist af gjörningum og mælieiningar eins og slatti og dash ráða ríkjum. Uppskriftirnar hér að neðan má því aðlaga að smekk hvers og eins, sögðu þau skötuhjúin þá .

Humar a la Árbakki

(Forréttur fyrir 6-8, aðalréttur fyrir 4)

  • 1 kg humar (í skel)
  • 3 – 4 hvítlauksrif
  • 1 - 2  dl hvítvín (sætt)
  • 1 - 2 dl rjómi
  • Fersk steinselja (eftir smekk)
  • Smjör
  • Salt og pipar

Hreinsið humarinn (hér á bæ er það kallað að skeina) og takið hann úr skelinni. Brytjið eða merjið hvítlaukinn smátt. Bræðið smjörið á pönnu, setjið hvítlaukinn og steinseljuna út í og léttsteikið humarinn (alls ekki of lengi). Veiðið humarinn upp úr soðinu (skiljið eftir 2 – 3) og setjið til hliðar. Bætið hvítvíni út í og látið malla í smá stund. Setjið rjóma, salt og pipar út í eftir smekk og sjóðið saman í stutta stund. Þegar sósan er orðin eins og þið viljið hafa hana setjið þið humarinn út í heita sósuna og berið fram með nýju eða ristuðu brauði. A.t.h. Sósan á að vera þunn.

Fljótlegur fylltur kjúklingur

  • 1 kjúklingur (eða fleiri)
  • ½ - 1 pakki Ritzkex (eða annað saltkex)
  • 1 hvítlaukur
  • ½ - 1 laukur
  • Fersk steinselja
  • 250 g íslenskt smjör
  • Salt, pipar og annað krydd eftir smekk.

Myljið Ritzkexið og setjið í skál. Bræðið smjörið á pönnu og brúnið hvítlauk, lauk og steinselju í því. Blandið saman við kexið og bætið salti og pipar út í. Troðið inn í kjúklinginn, lokið gatinu með tannstönglum og kryddið svo eftir smekk (gott að nota salt, sítrónupipar og hvítlaukskrydd). Eldið við 170 - 180°C í 45 mín - 1 klst (eftir stærð fuglsins). Ausið soði öðru hvoru yfir á steikingartímanum.

Bailey’s nougat ís með Maltezers kúlum

  • ½ l rjómi
  • 4 egg
  • 1 nougat stykki (Odense)
  • 1 – 2 msk sykur (má sleppa)
  • 1 – 2 dl Bailey’s
  • Malterzers kúlur

Þeytið rjómann og setjið í kæli. Skiljið eggin, þeytið eggjahvíturnar og setjið í kæli. Þeytið saman eggjarauður og sykur. Blandið saman nougati og Bailey’s í skál og hrærið síðan vel saman við eggjarauðurnar. Blandið varlega saman við rjómann með sleif. Brytjið niður Maltezers kúlur og blandið saman við. Blandið eggjahvítunum varlega saman við (skera saman). Setið í frysti.

Verði ykkur að góðu!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir