Hrossakjöt á ýmsa vegu og marengs berjabomba í eftirrétt

-Þar sem flestir  eru í kreppugírnum,  ætla ég að koma með ódýrar og auðveldar uppskriftir, sagði Sigrún Valdimarsdóttir ferðaþjónustubóndi í Dæli Víðidal í febrúar 2010 þegar hún var matgæðingur Feykis. -Við teljum folalda- og hrossakjöt mjög vannýtt en að okkar áliti hér á bæ, er það mikill ”herramanns” matur. Þar sem ég er álíka óskipulögð og afkvæmið sem skoraði á mig og flestar uppskriftir felast í slatta, klípu, dass og álíka mælieinungum, er svolítið erfitt að detta inn í tsk, dl. gr og þess háttar en hér koma herlegheitin. 

Grafinn hrossavöðvi:  fyrir ca 6 manns.

  • ca 700gr. hrossavöðvi.
  • 3tsk. salt
  • 1 tsk sykur
  • 1 tsk timian
  • 3 tsk villijurtablanda
  • 1 tsk svartur pipar.

Veltið kjötinu upp úr  kryddinu  vefjið í álpappír eða plastfilmu. Geymið í ísskáp í ca 24 tíma, endurtaka og láta standa í annan sólarhring.

 

Piparrótarsósa

  • 2 dl, rjómi þeyttur.
  • smá sítrónusafi.
  • 1 msk sykur
  • ½ msk piparrót.

Berið fram með t.d. klettasallati og rauðlaukshringjum.

 

Marinerað folalda/hrossakjöt

1,2 kg  vöðvi, skorinn í ca 2 cm þykkar sneiðar.

Blandið saman: 2dl tómatsósu, 1 msk steinselju, 1 tsk limepipar og 1 msk af matarolíu.

Veltið kjötinu upp úr blöndunni (þarf að þekja vel) raðið því í skál eða annað ílat og lokið vel.

Það fer það eftir aldri ”dýrsins” hvað þetta er lengi í marineringu, frá 1-6 sólarhringa er allt í lagi í góðum ísskáp, svo má nota hugmyndaflugið og krydda á ýmsa aðra vegu.

Steikt á pönnu eftir smekk hvers og eins, folaldakjöt ca 4 mín. á hvorri hlið (þarf ekki að sjóða upp eins og með kjöt af fullorðnu sem þarf að sjálfsögðu lengri tíma) bara að prófa sig áfram.

Meðlæti: t.d. soðnar kartöflur, sveppasósu, rauðkál og baunir, gamaldags og gott.

 

Eftirréttur

Marengs berjabomba

Stundum mistekst marengsinn eða brotnar, þá hendum við honum ekki heldur geymum hann og notum í  berjabombuna. Hér er ekki hægt að gefa uppskrift í dl. og tsk.

Brjótið marengsið niður í skál, hrærið saman við þeyttan rjóma, setjið plastfilmu yfir og geymið í ísskáp í ca 1 klst.  meðan marengsið deignar. Skerið niður jarðarber og setjið saman við ásamt bláberjum , setjið í skálar og skreytið með súkkulaðispæni.

Verði ykkur að góðu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir