Grillaðar hrossalundir – hrikalega gott og fljótlegt. Matgæðingar 2. tbl. 2009

Það eru þau Bergur Gunnarsson og Rósa María Vésteinsdóttir bændur á Narfastöðum í Skagafirði sem bjóða lesendum Feykis upp á dýrirndis uppskriftir og láta eftirfarandi fylgja með. Hér á norðurlandi er all víða ræktuð hross og þar sem efniviðurinn verður ekki alltaf að gæðingum fannst okkur upplagt að koma með aðalrétt sem hent gæti Skagfirsku matarkistunni. Alls ekki illa meint en gott með í úrvinnslunni.

Bergur og Rósa skora á þau Véstein Þór og Margréti dýralækni í Varmahlíð að koma með næstu uppskriftir. Þau kunna bæði vel til verka í eldhúsinu og verður því væntanlega eitthvað frumlegt og gott frá þeim eftir tvær vikur.

Himnesk haustsúpa - einnig mjög fín flensusúpa, einföld og fljótleg ;-)

  • 1msk ólífuolía
  • 1/3 blaðlaukur skorinn niður
  • 3 hvítlauksrif, pressuð
  • 500 gr niðurskorið grænmeti að eiginvali t.d. blómkál, borccoli, sveppir, gulrætur
  • 1 tsk salt
  • 1 tsk oregano
  • 1 tes basil
  • 1/2 tsk timjan
  • 2 msk tómatpúrre
  • 1 dós (ca 400 gr) niðursoðnir tómatar
  • 750 ml vatn
  • 2-3 grænmetisteningar

Hitið olíuna í potti og mýkið laukinn, bætið hvítlauknum saman við og steikið áfram í ca 1 mín. Setjið grænmetið og kryddið út í og blandið þessu lítið eitt saman. Þar næst fara niðursoðnu tómatarnir út í ásamt tómatpúrre, grænmetiskraftinum og vatninu. Sjóðið í 20-25 mín.   Ofan á súpuna til skrauts má nota tómata, skorna í litla teninga og ferska saxað basil.

Grillaðar hrossalundir – hrikalega gott og fljótlegt.
Þessi réttur kemur öllum verulega á óvart. Lundirnar eru lungamjúkar og minna lítið á þá ímynd sem hrossakjöt hefur haft í hugum flestra Íslendinga. Í þennan rétt þarf eina meðal feita lund fyrir ca. 5-6 manns.

Skerið lundina í ca 150-200 gr steikur. Berjið létt í sárið með hnefanum til að pressa steikina aðeins saman og forma. Stráið aðeins salti yfir bitana og veltið bitanum (kantinum) upp úr svörtum grófmöluðum pipar og setjið á grillið með sárið upp. Grillist örstutt (2-3 mín) við háan hita og snúið síðan við. Þegar seinni hliðin er að grillast er upplagt að strá parmesanosti yfir kjötið og láta bráðna. Gott er að meðhöndla kjötið eins og nautakjöt, steikja hæfilega lítið þannig að það sé vel rautt (medium rare) þegar það er borið fram.

Meðlæti
Meðan grillið er að hitna er meðlætið gert klárt.
Skrælið og skerið niður í hæfilega stóra bita allt það grænmeti sem ykkur finnst gott. Í þessa uppskrift nota ég gjarnan: rófur, sætar kartöflur, rauðlauk, sveppi, blómkál, broccoli og 1/2 gróf saxaðan hvítlauk. Setjið olíu á stóra pönnu og steikið grænmetið og hvítlaukinn í ca. 4-5 mín eða þar til það er farið að glansa aðeins, kryddið með salt og pipar og hellið síðan ¼ l. rjóma yfir og látið suðuna koma upp. Setjið lokið á og slökkvið undir. Geymið á hellunni þar til aðalrétturinn er tilbúinn á borðið.
Með kjötinu þarf ekki að bera fram sósu frekar en fólk vill þar sem sósa er með grænmetinu.

Eftirréttur:
Grillað Gúff úr Grillbók Hagkaups bls 201.

  • Fyrir 5-6
  • 100 g rifið súkkulaði
  • 3 stk kókosbollur
  • 750g ávaxtasalat t.d. jarðarber, kíwí, bláber, vínber, perur, bananar og epli.

Ávextirnir eru skornir í bita og settir í álbakka. Súkkulaðinu sáldrað yfir. Klessið kókosbollunum þar yfir. Grillið í u.þ.b. 10 mínútur við lágan hita.

Til að toppa þetta enn frekar þá er upplagt að bera þetta fram á vöfflulaufi með vanilluís eða rjóma.

Verði ykkur að góðu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir