Graskerssúpa, parmavafðar kartöflur og heimagrafinn lax

Að þessu sinni er það listakokkurinn úr Varmahlíð, Þórhildur María Jónsdóttir sem ætlar að galdra fram sælkerauppskriftir handa lesendum Feykis. Þórhildur skorar á matgæðingana, Auðbjörgu Guðjónsdóttir og Guðberg Haraldsson á Sauðárkróki að koma með uppskriftir að tveimur vikum liðnum.

Graskerssúpa
Fyrir 6 manns

  • 100 gr ósaltað smjör
  • 900 gr grasker (afhýtt, fræhreinsað, skorið í grófa teninga)
  • 20 gr fersk engiferrót ( afhýtt, skorið í sneiðar)
  • 70 gr sykur
  • salt og piprar
  • 50 ml þurrt hvítvín
  • 1 líri kjúklingasoð
  • 75 ml rjómi

Aðferð
Bræðið smjörið í potti. Bætið skorna graskerinu, engiferinu, sykri og 1 tsk salti út í pottinn. Hrærið og setjið lok yfir pottinn, látið krauma við frekar lágan hita í ca 30-45 mín., hrærið af og til. Takið lokið af og haldið áfram að elda þangað til vökvinn er gufaður upp.

Setjið hvítvínið í og sjóðið niður um 2/3, síðan setjið kjúklingasoð og rjómann og sjóðið í ca 10 mín.
Setjið súpuna í matvinnsluvél eða notið töfrasprota til að gera hana mjúka og að lokum setjið hana í gegnum sigti. Ef hún verður of þykk þá er bara að setja meiri vökva í hana.
Þessa súpu er gott að bjóða upp á á köldum vetrarkvöldum með ný bökuðu brauði.

Parmavafðar kartöflur

  • 24 stk kartöflur, frekar í minni kanntinum
  • 3  stk hvítlauksrif
  • 3 stk rósmarínstilkar
  • 1 stk kubbur kjúklingakraftur
  • 12 stk langar parmasneiðar

 

Setjið kartöflurnar í kalt vatn og látið vatnið fljóta yfir.  Setjið rósmarín, hvítlauk, kjúklingakraft og pínu salt.  Sjóðið í ca 15-20 mín eða þangað til kartöflurnar eru tilbúnar. Setjið ofninn á 210°C, sigtið vatnið af kartöflunum og vefjið inn í parmaskinkunna, ½ sneið á hverja kartöflu. Bakið í ofninum í 6-8 mín. eða þangað til parmaskinkan er elduð. Þessar kartöflur eru góðar sem meðlæti, í salatið og einnig einar og sér. Ef þær eru notaðar í salat er gott að hafa líka lárperu og smá vinagrett. Einar og sér er gott að skera þær í sneiðar strá sjávarsalti og muldnum svörtum pipar á þær og bera fram með þeim lárperumauk

Lárperumauk

  • 1 stk lárpera (vel þroskuð)
  • 2-3 matskeiðar sýrður rjómi
  • smá sletta af sítrónusafa

Heimagrafinn lax

  • 1 kg ferskur lax
  • 350 gr rock salt
  • 160 gr sykur
  • 3 stk sítrónur (börkur fínt rifinn)
  • 2 stk límónur (börkur fínt rifinn)
  • 2 stk stjörnuanis (vel mulinn)
  • 50 gr saxaðar kryddjurtir (t.d dill, graslaukur, kóriander, estragon)
  • halda eftir ca 1 ½  bolla af kryddjurtum

Laxinn er vel beinhreinsaður.  Öllu innihaldi er blandað saman. Laxinn er settur í bakka og  hulinn með blöndunni jafnt undir sem ofaná.  Filma er sett yfir bakkan og hann settur inn á kæli.  Það tekur ca 2 sólahringa að grafa laxinn, eftir ca 24 stundir snúið þá flakinu og eftir 24 stundir ætti laxinn að vera tilbúinn. Það fer eftir þykkt stykkisins hvað tekur langan tíma að grafa það. Gott er að bera laxinn fram með rúgbrauði og sinnepsdressingu.

Sinnepsdressing

  • 2 msk grófkorna sinnep
  • 1 msk sykur
  • 1 ½  msk hvítvínsvinagrett
  • 5 msk olia
  • 1 tsk ferskt dill (saxað)
  • salt og pipar

Súkkulaðibúðingur
Fyrir 4-6 manns

  • 200 gr Valrhona 64 %
  • 1 stk vanillustöng
  • 250 ml nýmjólk
  • 60 gr eggjarauður
  • 50 gr sykur
  • 200 ml rjómi

Saxaðu súkkulaði mjög smátt og settu það í skál.  Kljúfðu vanillustöngina og skafðu kornin úr henni.  Settu mjólkina í pott ásamt vanillustöng og kornum, hitaðu hana næstum alveg að suðu.  Þeyttu eggjarauðurnar létt með sykrinum.  Þeyttu heitri mjólkinni smátt og smátt saman við eggjarauðurnar og sykurinn og helltu blöndunni svo aftur í pottinn.  Hitaðu blönduna upp í 85°C og hrærðu stöðugt í  á meðan.  Helltu blöndunni svo í gegnum sigti.

Blöndunni er hellt yfir súkkulaðið smátt og smátt þar til súkkulaðiblandan er alveg slétt.  Láttu kólna niður í ca 35°C. Léttþeytta rjómanum er blandað gætilega saman við. Borið fram í glösum eða skálum.

Verði ykkur að góðu

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir