Góður kjúlli og djúsí desert

Kristrún og Sigurbjörn voru Matgæðingar Feykis haustið 2012.
Kristrún og Sigurbjörn voru Matgæðingar Feykis haustið 2012.

Kristrún Snjólfsdóttir og Sigurbjörn Bogason frá Sauðárkróki voru matgæðingar vikunnar í 31. tölublaði Feykis árið 2012. „Við viljum byrja á því að þakka Rögnu og Pétri fyrir áskorunina.  Við ákváðum að senda hér uppskrift af forrétti sem hefur verið hjá okkur á jólum og áramótum, sumir fjölskyldumeðlimir vilja reyndar sleppa ananas, aðrir rækjum þannig að það er sérlagað fyrir hvern og einn. Kjúklingur er í miklu uppáhaldi á heimilinu og því fannst okkur kjörið að hafa eina kjúlla uppskrift og þessi finnst okkur fljótleg og góð. Eftirrétturinn er svo mjög djúsí og ekki verra ef berin eru heimaræktuð," sögðu þau um uppskriftirnar sem fylgja hér á eftir.

Forréttur

Rækjukokteill

  • 2-300g rækjur
  • ½ d ananas (kurl)
  • 250 g majones
  • 1 dl þeyttur rjómi
  • 2-3 tsk tómats
  • 1 msk sítrónusafi

Aðferð:

Majones, þeyttum rjóma, tómatsósu og sítrónusafa hrært saman (verður svona eins og góð kokteilsósa).
Rækjur og ananaskurl sett í forréttarglös, sósan yfir, skreytt með soðnum eggjum og sítrónusneiðum.
Borið fram með ristuðu brauði.

Aðalréttur

Fylltar kjúklingabringur

  • 6 stk kjúklingabringur
  • 1 ½ msk ólífuolía
  • 2 stk skarlottulaukur, saxaður
  • 150 g sveppir, sneiddir
  • 100 g spínat
  • 50 - 100 g skinka, skorin
  • mozzarellakúlur
  • furuhnetur, ristaðar
  • salt og nýmalaður pipar
  • 1 pk Ritz kex
  • 6 hvítlauksgeirar
  • ólífuolía

Aðferð:

Hitið ofninn í 180°C. Bringurnar flattar út, t.d. með buffhamri (gott að setja þær í poka áður). Kryddaðar með salti og pipar. Laukurinn steiktur létt á pönnu ásamt sveppunum og spínatinu, furuhnetunum svo blandað saman við. Fyllið bringurnar með 1-2 tsk af lauk- og spínatblöndunni, smá skinku og mozzarellaosti og vefjið upp í rúllu (gott að nota  tannstöngla til að halda þeim lokuðum). Veltið bitunum upp úr ólífuolíu og niðurskornum hvítlauk og svo beint í mulið ritz-kexið. Gott að strá afganginum af ritzinu og því yfir. Setjið í eldfastform og bakið  við 180°C í um 30 mín.  Gott salat nauðsynlegt, einnig gott að hafa hrísgrjón og brauð.

Eftirréttur

Jarðarber í koníaksrjóma (fyrir 6)

  • 2 pk fersk jarðarber
  • Daimkúlur
  • 2 dl rjómi, þeyttur
  • 4 eggjarauður
  • 1 dl sykur
  • ½ dl koníak
  • ¼ dl kaffiduft
  • 4 blöð matarlím

Aðferð:

Jarðarber brytjuð og sett í skálar ásamt Daim (ýmist hægt að nota dessertskálar eða eina stóra skál). Eggjarauður og sykur þeytt vel og matarlím lagt í bleyti. Koníakið hitað í potti (ath. má ekki sjóða) og kaffiduft leyst upp í því. Matarlímið brætt í koníakinu og blandað saman við eggjarauðurnar. Svo er settur þeyttur rjómi. Sett í skálarnar, skreytt með jarðarberjum og Daimkúlum.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir