Góðar uppskriftir á grillið

Þau Guðrún Helga Marteinsdóttir og Hörður Gylfason á Hvammstanga eiga uppskriftir vikunnar að þessu sinni. Þau deildu með lesendum Feykis árið 2010 brot af því besta sem kemur úr eldhúsinu í Háagerði.

Forréttur:
Grillaðir ostafylltir tómatar

  • 4 stórir tómatar
  • 1 krukka fetaostur
  • 1lítil dós kotasæla
  • Salt (Maldon)

Skorið er ofan af tómötunum og skorið innan úr þeim og það maukað með töfrasprota ásamt fetaostinum og kotasælunni og smá salti. Þetta er svo sett inn í tómatana aftur og þeir grillaðir þangað til “húðin” á tómötunum byrjar að rifna.

Aðalréttur:
Grilluð nautalund

  • 1 nautalund
  • Salt og pipar, rósmarín
  • 4 geirar af hvítlauk, marðir
  • Ólífuolía

Lundin er marineruð í olíunni og hvítlauknum með salti og pipar. Lundinni er svo skellt á grillið og þá er rósmaríni bætt á. Lokið kjötinu á funheitu grillinu og svo er lundin grilluð rólega eftir það.

Meðlæti:
Sætkartöflustappa:

Sætar kartöflur eru soðnar og þær svo maukaðar/stappaðar og smjöri bætt við þær.

Hvítlaukssveppasalat:

  • 2 öskjur sveppir
  • 3 geirar hvítlaukur, marðir
  • Olía
  • Klettasalat
  • Furuhnetur
  • Salt og mulinn svartur pipar

Sveppirnir eru steiktir úr hvítlauksolíunni og saltaðir og pipraðir. Sveppirnir eru svo látnir kólna og klettasalati og furuhnetum bætt saman við þá.

Laddalaukur:

  • 4 stórir rauðlaukar
  • 50 ml rauðvínsedik
  • 50 ml vatn
  • 2 msk sykur

Rauðlaukur skorinn niður og hann settur í pott með smá olíu, þegar hann er aðeins farinn að steikjast þá er vökvanum bætt við og sykrinum. Látið malla þar til laukurinn sultast. Það má sykra meira ef þurfa þykir. Borið fram heitt.

Eftirréttur:

  • Ostakakan hennar mömmu:
  • Ofsalega einföld og fljótgerð ostakaka
  • 1pakki Digestive kex
  • ½ dós smjörvi.
  • 500 gr rjómaostur
  • 1 egg
  • ¼ l rjómi
  • 1 stítróna
  • 3 msk c.a flórsykur
  • Vanilludropar c.a hálft glas

Kexið er mulið og bræddum smjörva er bætt við kexið og blandað saman og sett í form. Rjóminn er þeyttur. Egg er sett í skál með rjómaostinum og þeytt vel saman með handþeytara. Þeytta rjómanum er svo bætt út í ásamt flórsykrinum og vanilludropunum. Safinn úr sítrónunni er kreistur út í. Smakkað til, má jafnvel bæta við meiri flórsykri.

Þetta er svo sett ofan á kexið. Ofan á ostakökuna má svo setja hvað sem er, til dæmis vínber, bláber eða jarðaber eða súkkulaðispæni.

Verði ykkur að góðu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir