Gangnamannamaturinn
Það er bóndinn og ráðunauturinn Sigríður Ólafsdóttir í Víðidalstungu sem var matgæðingurinn í tbl 37 en það var hún Ragnheiður Jóna sveitarstjóri Húnaþings vestra sem skoraði á hana að taka við af sér.
„Ég er lélegasti kokkur í heimi og elda í mesta lagi einu sinni á ári, þá fyrir göngur og alltaf með hjálp frá systur minni (lesist: hún ber hitann og þungann af eldamennskunni). Þetta er semsagt það sem ég býð gangnafólkinu mínu upp á á hverju hausti, einfalt og þægilegt, og fólkið mitt hefur ekki kvartað hingað til (mögulega af því að allur matur smakkast betur fram á heiði)“ segir Sigríður.
AÐALRÉTTUR
Gangnamannamaturinn
Lambalæri fyrir 6
Meðalstórt úrbeinað lambalæri
Best á lambið krydd
Aðferð:
Helling af kryddi smurt á lærið og það sett inn í ofn í 1,5 klukkustund eða þangað til kjötmælirinn segir 65 gráður.
Kartöflusalat
2 kg kartöflur
4 græn epli
1 bolli sweet relish
1 stór dós létt mæjones
1 dl sætt sinnep
Salt og svartur pipar eftir smekk
Aðferð:
Kartöflur soðnar, skrældar og brytjaðar niður, epli skræld og brytjuð niður. Majonesi, sweet relish og sinnepi maukað saman og blandað saman við kartöflur og epli, salti og pipar blandað út í. Ef sinnepsbragðið kemur of sterkt í gegn er gott að bæta aukadassi af pipar út í.
Piparostasósa
3 piparostar
1,5 ltr rjómi eða matreiðslurjómi
1-2 stk kjúklingakjötkraftur
Aðferð:
Ostur skorinn niður eða rifinn í matvinnsluvél (betra að rífa því þá er hann fljótari að bráðna). Ostur hitaður í potti á lágum hita með ½ ltr af rjóma þar til hann er að mestu bráðinn, rest af rjóma og kjúklingakraftur settur saman við, hrært í allan tímann svo osturinn brenni ekki við, sósan er tilbúin þegar allur osturinn er bráðnaður og sósan orðin temmilega þykk.
EFTIRRÉTTUR
Það var enginn forréttur og hvað þá eftirréttur enda kann ég ekkert að elda svoleiðis!
Hún skoraði á Magnús Ásgeir Elíasson á Stóru-Ásgeirsá en hann er einmitt matgæðingur vikunnar í tbl 39 sem kom út á miðvikudaginn.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.