Gæs að hætti kennarans

Jóna Hjaltadóttir, kennari, og Arnar Halldórsson, verkefnastjóri Gagnaveitu Skagafjarðar, voru gestgjafar vikunnar í mars 2007. Þau hjón buðu upp á þurrkryddaða gæs ásamt steiktu grænmeti og „Sigurlaugar“ köku. Jóna og Arnar skoruðu á vin sinn og kórfélaga Arnars, Gunnar Sandholt, að koma með næstu uppskrift.

Aðalréttur
Þurrkrydduð gæs
Gæs úrbeinuð, bringum og leggjum velt upp úr krydd-blöndu og látið standa í 2-4 tíma.
Kryddblanda – nóg til að þekja bringurnar og leggina.

  • -           Season All
  • -           Lemon&Herb seasoning frá McCormick
  • -           Herbamare Original frá A.Vogel (Hafsalt með kryddjurtum)
  • -           Nýmulinn svartur pipar

 

  • 1 ½ – 2 lítrar vatn settir í steikarpott ásamt eftirfarandi;
  • -    sveskjur ca. 20 stk.
  • -    1 stk laukur saxaður
  • -    1 epli í bitum
  • -    4 msk. púðursykur

Allt látið malla í heitum ofninum við 225 – 250 °c. Leggir steiktir / lokaðir á pönnu, lagðir í steikarpottinn og látnir malla í vel heitum ofni í 20 mín. Þá eru bringurnar snöggsteiktar á pönnu og settar út í pottinn og allt látið malla saman í 30 – 45 mín.

Sósa:
Innmatur gæsarinnar soðinn saman í potti í 45 – 60 mín. saltað. Soðið síað frá og sett í pott ásamt soði af bringum og leggjum – svona mest allt. Suðan látin koma upp og bætt út í; ½ dós mysing, 4 msk. rifsberjasultu og  rjóma ef vill. Sósan þykkt með sósujafnara og smökkuð til. Borið fram með kartöflum og steiktu grænmeti. 

Steikt grænmeti

  • -           1 stór sæt kartafla
  • -           2-3 stilkar sellerí
  • -           ¼ hluti sellerírót
  • -           1 stór laukur
  • -           1 rauð paprika
  • -           1 bakki sveppir

Grænmetið þvegið og skorið í teninga, steikt upp úr olíu á pönnu, kryddað með 1 – 2 grænmetisteningum. Látið malla þar til grænmetið er orðið meyrt.

Eftirréttur
Sigurlaugarkaka með karamellusósu og ís. Fékk þessa hjá vinkonu minni og starfsfélaga Sigurlaugu Konráðsdóttur.

  • 250 gr. döðlur
  • 1 ½ tsk. matarsódi
  • 180 gr. mjúkt smjör
  • 7 ½ msk. sykur
  • 3 egg
  • 4 ½ dl. hveiti
  • 1 tsk. vanilludropar
  • 2 stk. lyftiduft

Döðlur settar í pott, vatn látið fljóta yfir og suðan látin koma upp. Látið standa í 3. mín. Matarsóta stráð yfir þannig að það freyði. Smjör og sykur þeytt saman þar til það verður létt og ljóst, eggjum bætt út í og þeytt mjög vel. Þurrefnum blandað saman og sett út í og hrært. Vatnið síað frá döðlunum og þær settar út í blönduna. A.m.k. 1 dl. af döðluvatninu settur út í – jafnvel meira. Deigið á að vera svipað þunnt og vöffludeig. Bakað í 30 – 40 mín við 180°c (í háu kringlóttu smelluformi).

  • Karamellusósa
    120 gr. smjör
  • 115 gr. púðursykur
  • ½ tsk. vanillusykur
  • ¼ rjómi

Soðið saman í 3 mín og hrært vel í á meðan.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir