Föstudagspizza, stokkandarbringa og melónusalat
Matgæðingar í tbl 42 voru þau Ólöf Rún Skúladóttir og Hartmann Bragi Stefánsson. Þau búa ásamt eins og hálfs ára syni þeirra, Hirti Þór, á Sólbakka II. Þau eru nýlega flutt aftur heim eftir nám og eru nú komin inn í búskapinn á Sólbakka með foreldrum Ólafar. Hartmann er menntaður pípari og búfræðingur, vinnur nú að mestu leyti við búið, en Ólöf, sem er lærður landfræðingur og búfræðingur, hóf nýlega starf á leikskólanum Ásgarði á Hvammstanga.
,,Okkur langaði að deila með ykkur þremur uppskriftum, eini hversdags, annarri kannski meira til hátíðabrigða, ef uppskrift skyldi kalla og þriðju af sumarlegum millimálsrétti nú rétt fyrir mesta skammdegið. Vonum að þið njótið góðs af.“
Það er pizza á föstudögum – það er bara þannig.
Við gerum gerlaust pizzadeig sem maður er enga stund að útbúa. Hún kemur upprunalega frá Sollu (á Gló), en höfum aðlagað að okkur. Uppskriftin er víða þekkt, en við höldum að það megi vel minna á hana. Fljótleg, góð og létt í maga.
Föstudagspizzan (fyrir 2-3 - á eina ofnplötu)
250 g hveiti (ekki verra ef það er spelt)
1 tsk. lyftiduft (má sleppa)
½ tsk. salt
1 tsk. oregano
2 msk. olía
u.þ.b. 150 ml sjóðheitt vatn
Aðferð:
Vatnið er soðið, öllu blandað saman í skál og hnoðað létt. Degið er flatt út beint á bökunarpappír og skal botninn verða vel þunnur. Best er að setja rakt viskustykki undir bökunarpappírinn. Fletja degið út strax því það er mun auðveldara að fletja það út heitt.
Því næst er botninn forbakaður í u.þ.b. sjö til tíu mínútur á 200°C.
Þegar botninn hefur forbakast er gott að láta hann kólna örstutt áður en áleggi, að eigin vali, er raðað á. Mælum eindregið með að setja ostinn undir áleggið, geyma þó örlítið af osti sem stráð er yfir áleggið í lokin. Bakað í u.þ.b. 10 mínútur á 200°C.
Hátíðarmaturinn er stokkandarbringur. Hartmann stundar skotveiði og höfum við verið að fikra okkur áfram í eldun og framreiðslu á villibráð. Við erum ekki að finna upp hjólið hér frekar en með pizzuna, en höfum aðlagað að okkar smekk og erum ánægð með.
Stokkandarbringur
stokkandarbringur (helst veiddar í nágrenninu)
salt og pipar
Aðferð:
Bringum er skellt á vel heitt grill, þær grillaðar á hvorri hlið og saltað og piprað eftir smekk.
Erfitt er að gefa fasta uppskrift, enda hráefnið misjafnt og tilfinningin fljót að koma um hluti eins og hvenær bringurnar séu hæfilega eldaðar, en best finnst okkur að „pota“ í þær til að meta stífleikann.
Meðlæti fer eftir smekk en okkur finnst æðislegt að gera góða villibráðasósu og þá færir það leikinn upp á allt annað stig að nota í hana íslensk bláber. Kartöflur í ofni og síðan eitthvert sætt meðlæti eins og bakaðar perur.
Sumarlegt melónusalat – millimálsréttur
vatnsmelóna
lime
mynta
hrásykur (eða önnur sæta – má einnig sleppa)
Í þessari uppskrift eru engar mælingar þar sem þetta fer að mestu eftir smekk.
Melónan er skorin í litla munnbita, limesafi kreistur yfir og smátt skorin mynta sett saman við. Sætan er valkvæð, en það getur verið gott að setja örlitla sætu saman við. Gott ef það nær að hvílast aðeins, alls ekki of lengi – og mikilvægt er að borða kalt.
Þau skoruðu á Rakel Sunnu frá Þórukoti og Jóhann Braga, kærasta hennar, að taka við matarþættinum og voru þau í tbl 44.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.