Fléttubrauð með sólþurrkuðum tómötum
Sauðfjárbændurnir Jónína Ragna Sigurbjartsdóttir og Konráð Pétur Jónsson, Böðvarshólum í Húnaþingi vestra deildu með lesendum Feykis, uppskriftum af dýrindis máltíð sem er í miklu uppáhaldi allra á heimilinu. Hér er uppskrift af brauði sem er gott í forrétt og þá er gott að hafa pestó á það eða kryddolíu. Einnig er það gott með súpu, mat eða bara eitt og sér.
Fléttubrauð með sólþurrkuðum tómötum:
- 2 dl mjólk
- 1 1/2 dl. heitt vatn
- 3 tsk. þurrger
- 1 tsk. gróft salt
- 1 tsk. sykur
- 3 msk. sólþurrkaðir tómatar
- 2 msk. olía af sólþurrkuðum tómötum
- 2-3 tsk. fersk eða þurrkuð bergmynta (oregano)
- 4-500 gr. hveiti.
Blandið saman mjólk og vatni þannig að það sé 37C° og setjið gerið saman við. Grófsaxið tómatana og bætið út í mjólkurblönduna ásamt olíu, söxuðu óreganó, sykri og salti. Blandið hveiti út í og hrærið vel. Skiljið u.þ.b. 100gr.eftir af hveitinu.
Látið lyfta sér í 40-50 mín. eða u.þ.b. helming. Hnoðið og bætið hveiti saman við eftir þörfum þar til deigið sleppir vel hendi.
Skiptið deiginu í 2 hluta og síðan hvorum í 3 hluta og rúllið í jafna sívalninga og fléttið saman. Setjið bæði brauðin á plötu og látið lyfta sér í 15-20 mín. Penslið með volgu vatni og bakið við 200-210° C í 15-25 mín neðarlega í ofninum. Þegar brauðin eru bökuð er gott að vefja þau inn í rakan klút á meðan þau eru að kólna.
Aðalréttur:
Grillaðar kjötkökur
- 800 gr. hakk (kinda, folalda, nauta)
- 2 tsk. salt
- 1 tsk. pipar
- 1 egg
- 1 msk. HP sósa
Allt sett saman í skál og hrært saman. Búnar til buffkökur og grillað í 3 – 5 mín á hvorri hlið. Meðlæti t.d. soðnar kartöflur, soðið grænmeti, rauðrófur og sulta.
Eftirréttur:
Önnu nammi
- 250 gr. brætt smjör
- 360 gr. smátt brytjaðar döðlur
- ca. 6 bollar rice krips.
- Bræða 300 – 400 gr. suðusúkkulaði
Bræðið smjörið í potti og fyrir þá sem nenna ekki að skera döðlurnar þá er í góðu lagi að setja þær bara út í smjörið og hita. Merja þær svo í sundur með t.d. kartöflustappara. Því næst er smjörinu og döðlunum bætt út í rice kripsið. Hrærið lauslega saman og setjið í t.d. eldfast mót og þjappið þessu saman. Bræddu súkkulaðinu smurt yfir.
Þegar þetta er orðið kalt er gott að skera þetta niður í bita.
Verði ykkur að góðu.
Áður birt í Feyki 2010
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.