Feykigott á grillið
Sumardagurinn fyrsti er nú liðinn og góða veðrið rétt handan við hornið. Þá er rétt að rifja upp þrjár uppskriftir að óviðjafnanlegum kryddlegi sem birtust í 16. tölublaði Feykis 2015 og óhætt er að mæla með. Það er ekkert sem jafnast á við góðan grillmat til að gæða sér á á fallegu sumarkvöldi.
Kryddlegirnir og gljáinn henta vel með alls konar kjöti, lamba- nauta- eða folaldakjöti. Teryaki og kínverski er sérlega góður með lambakjöti og sá kínverski er bestur á fremur feitu kjöti, t.d. framparta- og hryggsneiðum. Þumalputtareglan varðandi magn á kjöti í teriyaki- og kínverska leginum er að ef þú telur þig vera með yfirdrifið magn, þá að margfalda það með tveimur. Þeir eru sérlega ávanabindandi og líka mjög gott að að narta í kjötið kalt næstu daga, þ.e.a.s. ef það klárast ekki. Gott er að setja kjötið í Teriyaki- og kínversku legina kvöldið áður en grillað er en einnig dugar að gera það um hádegi samdægurs. Apríkósugljáinn þarf ekkert að liggja á, bara að smyrja það á og svo beint á grillið.
Mælt er með því að bera þetta fram með kartöflum, kaldri hvítlaukssósu frá Nonna (ómissandi), góðu salati og svo að sjálfsögðu rauðvíni eða ísköldum bjór.
Teriyaki kryddlögur
1 dl olía
3 msk sesamolía
2/3 dl sojasósa
2 tsk kummin
2 tsk koríanderduft (eða handfylli af fersku söxuðu koríander)
3 hvítlauksrif, pressuð
1 msk fersk engiferrót, söxuð
1 msk púðursykur (eða 2 msk hunang)
Kínverskur kryddlögur
2 msk olía
1 sítróna
½ tsk lauksalt
2 ½ hvítlauksrif, pressuð
1 tsk engifer
1 tsk bearnaise essence
2 ½ tsk salt
½ sinnep
1 msk tómatsósa
3 msk sykur
¼ tsk pipar
½ sojasósa
1 tsk tabasco
Apríkósugljái
4 msk apríkósusulta
4 msk barbicue sósa
4 msk olía
3 tsk milt karrí
salt og nýmalaður pipar
Verði ykkur að góðu!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.