Einiberjagrafinn lambavöðvi

Nú eru það Edda Guðbrandsdóttir og Guðmundur Sigfússon á Blönduósi láta okkur í té uppskriftir sem sóma sér vel á veisluborðunum en veislu getum við sett upp hvenær sem er með þessum uppskriftum.

Einiberjagrafinn lambavöðvi
Með melónu og  sinnep- limesósu

1 kg. lambavöðvi (snyrtur og jafnþykkur ca. 5 cm)

  • ½ dl. sykur
  • ½ dl. gróft salt
  • 1 ½ msk. grófmalaður svartur pipar
  • 1 tsk mulin einiber

Öllu kryddinu blandað saman. Kjötið sett í plastpoka og kryddblöndunni hellt í pokann hnýtt fyrir og hrist vel saman. Eða leggið kjötið í bakka og stráið kryddblöndunni vel undir og yfir kjötið, breiðið plastfilmu yfir. Kjötið látið liggja í kæli í ca. 3-4 daga. Takið kjötið úr kælinum og skafið kryddið af og skerið kjötið í örþunnar sneiðar með beittum hníf. (Gott er að frysta kjötið og skera það í áleggshníf). Kjötið lagt í þunnum sneiðum á disk eða rúllað upp í rós. Borið fram með þunnum sneiðum af hunangsmelónu og sinnep, limesósu.

Fyllt svínalund
með sólþurrkuðum tómötum:

Fylling:

  • 6 stk sólþurrkaðir tómatar í sneiðum
  • 100 gr rifinn mozarellaostur
  • 2 stk hvítlauksrif, fínt söxuð
  • 1 stk laukur fínt saxaður
  • 80 gr nýir sveppir í sneiðum

Laukurinn og sveppirnir eru steiktir í olíu, hvítlauknum, sólþurrkuðu tómötunum og rifna ostinum bætt út í, allt þetta síðan kælt.

Kryddlögur:

  • ½ dl ólífuolía
  • ¼ dl sojasósa
  • 1 msk rósmarín, saxað

Takið sinina af lundunum.  Snöggsteikið svínalundirnar í smjöri á heitri pönnu.  Skerið svo rauf í svínalundirnar eftir endilöngu.  Setjið fyllinguna ofan í raufina, lokið með sláturgarni eða tannstönglum.  Smyrjið með kryddleginum.  Setjið í ofnskúffu og bakið í 180°C heitum ofni í ca 15 mín.

Fylltir sveppir

  • 20 stórir sveppir
  • 1 100 gr lauf gráðostur
  • 1 dl rjómi

Sveppirnir þvegnir og leggurinn tekinn af þeim. Gráðosturinn hrærður út með rjómanum og sveppirnir fylltir með blöndunni. Þeir bakaðir við 200°C í ca 5 mín.

Fylltar bakaðar kartöflur

  • 6 stk bökunarkartöflur
  • 2 stk vorlaukur
  • ¼ agúrka
  • ½ búnt dill
  • 2 msk matarolía
  • 3 msk sítrónusafi
  • salt og pipar
  • 125 gr rækjur
  • 90 gr hrein jógúrt

Bakið kartöflurnar í miðjum ofni í 60 mín við 200°C. Skerið agúrkuna eftir endilöngu og fjarlægið kjarnann með skeið. Skerið vorlauk og agúrku í litla bita eða þunnar sneiðar og klippið niður dillið. Blandið saman sítrónusafa, olíu og kryddi og hellið yfir rækjurnar og grænmetið. Skerið lok af kartöflunum þegar þær eru bakaðar og holið þær aðeins að innan með teskeið. Stappið jógúrtinni saman við ¾ hluta þess sem skafið var innan úr kartöflunum. Blandið því saman við grænmetið og rækjurnar, kryddið efir smekk, setjið fyllinguna í kartöflurnar og rétturinn er tilbúinn

Meðlæti salat að eigin ósk.

Gamaldags trifli

  • 12 makkarónukökur
  • 4 msk hindberjasulta
  • 4 msk sherrí (sætt)
  • 450 gr niðursoðnar  ferskjur

Brjótið makkarónukökurnar  niður og setið í glerskál. Setjið hindberjasultuna yfir og bleytið í með sherríinu.

Vanillukrem:

  • 2 egg
  • 50 gr sykur
  • 1 msk maísinamjöl
  • ½ vanillustöng
  • 3 ½ dl mjólk
  • skraut
  • 2 dl þeyttur rjómi
  • jarðarber

Vanillukrem:
Þeytið egg, sykur og maísinamjöl saman í þykkbotna potti, kljúfið vanillustöngina, takið kornin úr og þeytið saman við eggjahræruna. Þeytið mjólkinni saman við og látið kremið sjóða, þeytið áfram og látið kremið sjóða í nokkrar  mín. Takið pottinn af hellunni og kælið, hrærið af og til í kreminu svo ekki myndist skán. Skerið ferskjurnar niður og leggið yfir makkarónurnar, hellið kreminu því næst yfir  og skreytið með þeyttum rjóma og jarðarberjum.

A.T.H. í trifli má nota grand mariner í staðin fyrir sherrí og eplamauk eða jarðarber  í staðin fyrir hindberjasultu.

Verði ykkur að góðu

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir