Djöflaegg og folaldalundir sem klikka aldrei

Þessa vikuna eru það Erla Gunnarsdóttir og Bjarki Kristjánsson á Svínavatni sem láta okkur í té gómsætar uppskriftir. Djöflaegg, folaldalundir með beikoni og triffli í eftirrétt er á boðstólnum.

Forréttur
Djöflaegg

  • 4-6 egg (c.a. 1 egg á mann)
  • ½ dós sýrður rjómi
  • 2 msk mayonnaise
  • 2 msk sweet relish
  • Karrý og salt

Eggin eru harðsoðin og kæld. Síðan eru þau skorin í tvennt á langveginn. Rauðan hreinsuð úr og sett í skál ásamt öllu hinu og það hrært saman. Karrýi og salti bætt út í eftir smekk. Eggjahvítunum raðað á disk og eggjarauðublöndunni sprautað í eggjahvíturnar. Skreytt með paprikudufti sem stráð er yfir. Gott er að bera þetta fram á salatbeði og með ristuðu brauði.

Folaldalundir með beikoni

  • 500 gr folaldalundir (eða annað kjöt t.d. lamb eða naut)
  • 1 pakki beikon
  • 1 krukka súrar gúrkur (litlar gúrkur eða í sneiðum, en má einnig sleppa þeim)
  • Salt og pipar

Folaldalundirnar eru skornar í þunnar endilangar sneiðar.  Þær eru kryddaðar með salti og pipar. Síðan er ein sneið af beikoni sett á hverja sneið af folaldalund og síðan biti af súrri gúrku. Þessu er því næst rúllað upp og tannstöngull settur í gegn um rúlluna til þess að halda henni saman. Rúllurnar eru brúnaðar á pönnu og síðan látnar malla þar til þær eru steiktar í gegn (einnig má grilla þær). Að lokum er rjóma hellt út á pönnuna til þess að útbúa sósu með rúllunum. Sósuna má bragðbæta að vild, t.d. með rifsberja hlaupi.

Kartöflugratín

2-3 sætar kartöflur afhýddar og skornar niður í skífur. Skífunum er raðað í botninn á eldföstu móti. Síðan er salti, rósmarín og timian stráð yfir. C.a. 2 dl af rjóma hellt yfir og síðan rifnum osti stráð yfir. Bakað í ofni við 180°C í c.a. 20 mínútur. Gott er að hafa ferskt salat með þessu og rifsberjahlaup.

Triffli

  • 1 poki makkarónukökur
  • 1 stór dós jarðaber
  • 1 pakki heitur búðingur (vanillu eða romm)
  • ¾ líter rjómi
  • ca. ½ dl sherrí

 

Fyrst eru makkarónurnar settar í skál. Hluta af jarðaberjasafa og sherríinu blandað saman og hellt yfir. Jarðaberin lögð yfir makkarónurnar. Látið standa á meðan búðingur er lagaður eftir leiðbeiningum af pakka og hann látinn kólna. Rjómi þeyttur og helmingi hans blandað verlega saman við kaldan búðinginn og sett ofan á jarðaberin. Lagi af þeytta rjómanum sett yfir og sprautið svo restinni sem skrauti efst. Svo má skreyta með súkkulaði og rauðum kirsuberjum eða öðru sem til fellur.

Verði ykkur að góðu

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir