Bragðsterkir og einfaldir réttir
Erla Jónsdóttir og Jóhann Ingi Ásgeirsson frá Kambakoti í fyrrum Vindhælishreppi voru matgæðingar vikunnar í 32. tölublaði Feykis árið 2012. „Hérna koma mjög bragðsterkir og einfaldir réttir, það fer lítill tími í matreiðsluna sem er e-ð sem hentar mér mjög vel að minnsta kosti,“ sögðu þau Erla og Jóhann um uppskriftirnar sínar.
Forréttur
Marineruð ýsa
1 kg ýsa
1 rauðlaukur, eða bara sá laukur sem fólk vill
1 msk olífuolía
safi úr 6-8 sítrónum, eða bara sítrónusafi
1-2 paprikur
Sósa:
1 dós sýrður rjómi
3 msk majones
sætt sinnep
Dijon sinnep
púðursykur
hunang
Þetta er nú bara smakkað til.
Aðferð:
Fiskurinn er hreinsaður mjög vel og skorinn í mjög litla bita, saxa þarf laukinn smátt, þetta er síðan sett í skál og leginum hellt yfir, þ.e. sítrónusafanum og olíunni, sett í ísskáp í sólarhring. Gott er að taka fiskinn úr marineringunni og strá saxaðri rauðri papriku yfir áður en hann er borinn fram. Þetta er svo borið fram með ristuðu eða óristuðu snittubrauði og sósunni.
Aðalréttur
Pönnusteiktur fiskur í BBQ-sósu
Ýsa eða þorskur (þorskurinn er nú alltaf betri)
Hveiti til að velta fiskinum upp úr fyrir steikingu
½-1 flaska BBQ sósa- original (eða önnur ef vill)
smá salt
1-2 dl rjómi (eða bara eins og þarf í sósuna)
hrísgrjón
hrásalat
Aðferð:
Þessi réttur hljómar kannski ekki vel en ef vel tekst til með steikinguna á fiskinum að þá er þetta algjör veisla. Fiskurinn er hreinsaður mjög vel og velt upp úr hveitinu og síðan upp úr BBQ-sósunni og sett á pönnuna. Ég reyni að steikja fiskinn við eins lágan hita og hægt er þá sleppur maður við að BBQ-sósan spýtist út um allt, passa vel að steikja mjög stutt. Þegar búið er að steikja allan fiskinn, helli ég smá rjóma á pönnuna og meiri BBQ-sósu og hræri saman í smá stund þá er komin svakalega bragðgóð sósa, styrkleikanum má stjórna með magni af sósu og rjóma, best er að smakka hana bara til.
Sósan loðir misvel við fiskinn þannig stundum getur þetta litið hálf illa út eftir steikingu, þá er líka hægt að steikja fiskinn bara enn minna og hella svo sósunni yfir hann allan að steikingu lokinni.
Þetta er síðan borið fram með miklu magni af hrísgrjónum og hrásalati.
Eftirréttur
Ferskju-marengsterta
5 eggjahvítur
250 gr sykur
1 peli rjómi
1/2 dós niðursoðnar ferskjur
Aðferð:
Þessi terta passar nú kannski ekki mjög vel á eftir fiskinum en þessi er ótrúlega létt og þægileg, hentar mínu getustigi í bökunarmálum því mjög vel, því langaði mig að koma henni á framfæri.
Eggin og sykurinn eru þeytt mjög vel saman og sett síðan á bökunarpappír á plötu, bakað við 100°C í 3-4 tíma með blæstri, ég geri þetta nú stundum bara á kvöldin og slekk svo á ofninum og læt botnana bara kólna í ofninum til morguns.
Þeyti rjómann og sker síðan niður ferskjurnar í mjög litla bita, blanda saman og skelli á milli. Verður ekki mikið betra miðað við vinnuframlag og hæfni gerandans.
Verði ykkur að góðu!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.