Auðveld og góð gúllassúpa
-Nú eru réttir um hverja helgi og margt um manninn og þá er gúllassúpa auðveld og góð. Með henni hef ég brauðbollur. Karamellusúkkulaðistangir eru góðar með kaffinu eftir matinn, segir Selma Svavarsdóttir ökukennari á Blönduósi en hún og synir hennar þeir Sigurgeir Njáll og Bjartmar Dagur voru matgæðingar Feykis fyrir réttum þremur árum. Sigurgeir og Bjartmar gáfu lesendum upp uppskriftina af uppáhalds muffinskökunum sínum.
Súkkulaðibita muffins
- 2,5 bollar hveiti
- 1,5 bollar sykur
- 1 tsk natron
- 1 tsk salt
- 2 msk vanillusykur
- 3 egg
- 1 dós jógúrt
- 220 gr brætt smjörlíki
- 150-200 gr saxað suðusúkkulaði
Allt hrært saman, sett í múffuform og bakað við 190° C í ca 15-20 mín.
Ég nota alltaf sömu uppskriftina í allt gerbrauð, bollur og/eða snúða. Nota bara hugmyndaflugið hvernig brauð maður vill.
- 6 dl volgt vatn og mjólk (nota 3+3)
- 3 msk þurrger
- 3 msk sykur (hrásykur)
- 1 tsk salt
- 150 brætt smjörlíki
- Um 1 kg hveiti (spelt)
- (1-2 dl hveitiklíð eða eitthvað annað)
Allt sett saman og hnoðað vel, látið hefast á hlýjum stað þar til það hefur lyft sér, mótaðar bollur og bakað við 225 C í ca 10 mín.
Ég nota lambakjöt í gúllassúpuna, fer bara í SAH afurðir og kaupi heilan skrokk og sker eitthvað af honum í gúllas. Uppskriftin er fyrir sex.
- 700 gr gúllas (á að vera nautakjöt)
- 2 laukar
- 3 hvítlauksrif
- 1 ½ msk paprikuduft
- 1 ½ l vatn
- 2 teningar kjötkraftur
- 1-2 tsk meiran
- 700 gr kartöflur
- 2-3 gulrætur
- 2 paprikur
- 4-5 tómatar eða 1 dós niðursoðnir (400 g)
Steikið kjötið ásamt lauk og pressuðum hvítlauk. Setið í pott með vatninu ásamt kryddinu og sjóðið við vægan hita í 40 mín. Kartöflur, gulrætur, paprika og tómatar skorið í bita og því bætt útí og soðið í 30 mín. Kryddið meira ef vill.
Uppskriftina af karamellusúkkulaðistöngunum fékk ég hjá Jóhönnu Steinunni mágkonu minni. Þær eru ofboðslega góðar og gott að eiga í frystikistunni, laumast í eina og eina.......
Botn:
- 225 g hveiti
- ½ tsk lyftiduft
- 115 g smjör
- 50 g ljós púðursykur
- 150 g suðusúkkulaði, brætt
- 2 msk malaðar möndlur (má sleppa)
Hita ofninn í 160 C. Sigta hveiti og lyftiduft í skál. Bæta smjörinu í og hnoða saman þar til það líkist grófri brauðmylsnu. Hræra sykri og möndlum saman við. Bræða súkkulaði, bæta því útí og hnoða í samfellt deig. Þrýsta deiginu á botninn á vel smurðu ferköntuðu kökumóti (lítil ofnskúffa, ca 20x30 að stærð) Pikka deigið með gaffli og baka í miðjum ofni í 25-30 mín. Láta kökuna kólna í forminu.
Fylling;
- 175 g smjör
- 115 g sykur
- 2 msk síróp
- 1 ½ dl rjómi
- 150 g heslihnetur
- 225 g suðusúkkulaði
- 1-2 tsk olía
Rista hnetur á þurri pönnu. Smjör, sykur, síróp og rjómi sett í pott og sjóða þar til það verður nokkuð þykkt. Setja hneturnar fyrir botninn (ekki allir spenntir fyrir hnetum svo þarf ekki allar). Hella karamellunni yfir og látið storkna. Bræða súkkulaði, olía sett saman við og því síðan jafnað yfir karamelluna og látið storkna. Skerið kökuna með beittum hníf í stangir/bita. Geymið í frysti.
Verði ykkur að góðu!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.