Vill sjá aukin framlög inn í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga
Sveitarstjóri Blönduósbæjar er Valdimar O. Hermannsson og hann svaraði góðfúslega spurningum Feykis um stöðu og horfur sveitarfélagsins á tíma heimsfaraldurs. Valdimar tók við stöðu sveitarstjóra á Blönduósi að loknum kosningum sumarið 2018 en hann hafði áður starfað sem verkefnastjóri hjá Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar og Atvinnuþróunarfélagi Þingeyinga. Valdimar er markaðsfræðingur að mennt en hefur einnig lagt stund á fjölbreytt nám, m.a. í viðskiptafræðum, stjórnun, markmiðasetningu og leiðtogaþjálfun bæði hérlendis sem og í Evrópu, Japan og USA.
Íbúar á Blönduósi voru 962 þann 1. september sl. en helstu störf á Blönduósi tengjast heilbrigðisþjónustu, opinberum störfum, fjölbreyttum landbúnaði, iðnaðar- og verktakastarfsemi, sjávarútvegi og ýmiss konar verslun og annarri þjónustu.
Er mikið atvinnuleysi í sveitarfélaginu / hefur það aukist í kjölfar COVID? Sáralítið atvinnuleysi er í sveitarfélaginu, en á svæðinu öllu er það um 2,5%. Ekki er merkjanlegt að það hafi aukist mikið vegna COVID, en vissulega hefur dregist mikið saman ýmis starfsemi og þá sérstaklega í ferðaþjónustu sem og annarri þjónustu.
Hafa tekjur sveitarfélagsins, útsvar og framlög, minnkað vegna COVID? Já og á það sérstaklega við um framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, en einnig hefur útsvar dregist saman, og aðrar tekjur einnig, svo sem þjónustutekjur o.fl. Gerðar hafa verið ráðstafanir til þess að mæta minni tekjum, þó svo ekki sé alveg útséð með hver lokaniðurstaða ársins verður, í rekstri sveitarfélagsins.
Hafa útgjöld vegna félagsþjónustu og æskulýðsstarfs aukist á tímabilinu? Útgjöld vegna félagsþjónustu hafa vissulega aukist eitthvað, en sú þjónusta er rekin í sérstöku Byggðasamlagi um félags- og skólaþjónustu í A-Hún. Útgjöld vegna æskulýðsstarfs hafa eitthvað aukist en ekki verulega vegna minna umfangs starfseminnar.
Hvernig er útlitið fyrir næsta ár? Það er nú það verkefni sem við öll sitjum yfir um þessar mundir, þ.e. við gerð fjárhagsáætlana fyrir næsta ár og þriggja ára lögbundinna áætlana. Vissulega höfum við ákveðnar forsendur um kostnað, vegna launa og annarra rekstrarliða en verra er að spá fyrir um tekjur, miðað við hvernig ástandið er um þessar mundir. En áætlun er áætlun og við verðum bara að mæta því sem kemur.
Mun sveitarfélagið fara í einhverjar framkvæmdir til að styðja við atvinnulífið á svæðinu? Við höfum haldið öllum framkvæmdum gangandi en stærsta einstaka framkvæmd sveitarfélagsins þessi árin eru bygging verknámshúss við Blönduskóla og þar hefur frekar verið bætt í en dregið saman þetta árið. Stefnt er að því að reyna að klára þá framkvæmd á næsta ári, ef vel gengur. Þá eru framkvæmdir við gömlu Blöndubrúna sem mun liggja yfir í Hrútey.
Er eitthvað sem þér finnst að ríkið mætti gera betur til að styðja við sveitarfélögin? Já, við höfum haldið því fram að besta almenna aðgerð ríkisins gagnvart sveitarfélögunum væru aukin framlög inn í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga en sú aðgerð myndi gagnast miklum meirihluta sveitarfélaga. Þá hafa þegar verið gerðar sérstakar aðgerðir gegnvart þeim sveitarfélögum sem hvað mest eru háð ferðaþjónustu en það er erfitt að meta hvað hægt er að gera í þessu ástandi. Þá mun áfram verða opið samtal á milli ríkis og sveitarfélaga um framvindu mála.
Hver er þín tilfinning fyrir líðan íbúa og hvernig finnst þér þeir hafa brugðist við þessum breyttu aðstæðum sem heimsfaraldur hefur haft í för með sér? Það er í raun aðdáunarvert hvað samstaða íbúa hefur verið mikil, og stjórnendur skóla og annara stofnana sveitarfélaga lagt sig fram um að halda þeirri starfsemi gangandi, sem á annað borð hefur verið leyfð á hverjum tíma. En það má líka skynja ákveðna þreytu og vaxandi óþreyju um að þessu fari nú að ljúka og að við getum tekið upp eðlilegra líf aftur, farið að hittast meira og gera okkur glaðan dag saman, því maður er jú manns gaman, eða hvað…?
Hvað hefur þér fundist erfiðast við faraldurinn? Það er alltaf erfitt að horfa upp á fólk missa vinnuna, og jafnvel fyrirtæki sín, þar sem allar forsendur hefa breyst, sem það gat ekki séð fyrir eða gert neitt með. Einnig er hugurinn hjá því fólki sem var veikt fyrir og teljast viðkvæmir hópar. Það jákvæða við þennan faraldur er að við eyðum meiri tíma með okkar nánustu, þó knús sé í algeru lágmarki, við lærum meira að lifa með alls konar tækni og öðruvísi lausnum og minni tími fer í ferðalög og langar fundarsetur út um allt.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.