Vídeólist að Kleifum við Blönduós
Sigurður Guðjónsson sýnir á Blönduósi innsetninguna „INNLJÓS“ sem samanstendur af þremur vídeóverkum. Um er að ræða nýja umgjörð verksins en verkin vöktu óskipta athygli gesta í kapellu Sankti Jósefsspítalans í Hafnarfirði síðastliðið haust og færði sýningin Sigurði Íslensku Myndlistarverðlaunin 2018. Sýningin er haldin í samvinnu við ábúendur á Kleifum og eru öll verkin á sýningunni í eigu Listasafns ASÍ. Opnar hún þann 7. júlí kl. 15:00 og eru allir velkomnir.
Sigurður Guðjónsson (f. 1975) lærði í Vín, Reykjavík og Kaupmannahöfn. Hann sýndi fyrst um aldamótin síðustu í listamannareknum rýmum í Reykjavík og dökk en ágeng vídeóverk hans vöktu strax athygli, ekki aðeins á Íslandi heldur í Berlín, New York, Lundúnum, Beijing, Seoul og alls staðar þar sem þau hafa verið sýnd. Hann notar vídeó og lifandi myndir en að mörgu leyti mætti fullt eins skilgreina verk hans sem tónlist. Hann notar tímamiðil (vídeó) í verk sem fanga áhorfandann gegnum ryþma og endurtekningu og tengja mynd og hljóð á þann hátt að þau virðast víkka skynsvið manns og vekja nýjar kenndir.
Verkin eru oftast hæg og í þeim felst gjarnan vélræn endurtekning, þau draga mann inn í taktfasta endurtekningu en vaxa líka þegar maður staldrar við þau og fer að skynja fleiri þætti þeirra, skrýtnar lúpur og taktmynstur sem geta orðið næstum alltumlykjandi. Á síðustu árum hefur hann líka unnið í stamstarfi við tónskáld og þannig búið til verk sem sameina vídeó, rafhljóð og lifandi flutning. Hann er sífellt að víkka út sköpunarsviðið en verk hans bera sterk persónuleg einkenni og ná að skapa undarlega nánd sem aftur styrkir enn frekar skynhrifin. Sigurður er handhafi Íslensku Myndlistarverðlaunanna 2018 fyrir sýninguna INNLJÓS í kapellu og líkhúsi St. Jósefsspítala í Hafnarfirði á vegum Listasafns ASÍ.
Sýningar Sigurðar Guðjónssonar í Hafnarfirði og á Blönduósi eru þær fyrstu í röð sýninga sem Listasafn ASÍ skipuleggur og eru hluti af menntunar- og kynningarátaki safnsins til næstu ára. Á meðan safnið vinnur að því að koma upp nýjum sal verða sýningar safnsins haldnar í samstarfi við stofnanir og samtök víðsvegar um landið. Sýningarstaðirnir eru valdir í samvinnu við listamennina sem hlut eiga að máli hverju sinni og verða til skiptis á höfuðborgarsvæðinu og í öðrum landshlutum. Samhliða sýningum á nýjustu verkunum í eigu safnsins verða haldin námskeið í hreyfimyndagerð fyrir grunnskólabörn þar sem unnið er með elstu verkin í safneigninni. Næstu sýningar verða á verkum Hildigunnar Birgisdóttur á tveimur stöðum á landinu haustið 2018.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.