Vetur konungur afhendir Sumardísinni völdin á Hvammstanga á morgun

Frá skemmtun í Félagsheimilinu á Hvammstanga. Mynd: hunathing.is.
Frá skemmtun í Félagsheimilinu á Hvammstanga. Mynd: hunathing.is.

Á morgun, sumardaginn fyrsta, er boðað til hátíðahalda á Hvammstanga svo sem venjan er á þessum degi. Hefjast þau með skrúðgöngu sem leggur af stað frá Félagsheimilinu á Hvammstanga kl. 14:00 með viðkomu við sjúkrahúsið en að henni lokinni hefst hefðbundin dagskrá í Félagsheimilinu. Þar mun Vetur konungur afhenda Sumardísinni völdin og þá hefur sumarið innreið sína inn í hjörtun með söng og gleði. Að því loknu verða spilaðar nokkrar umferðir í bingó í boði fyrirtækja í Húnaþingi vestra.

Landsbanki Íslands býður öllum íbúum Húnaþings vestra, ásamt gestum og gangandi, í sumarkaffi í Félagsheimilinu Hvammstanga frá því að skrúðgöngu lýkur til kl. 16:30.

Hátíðahöld í tilefni sumarkomunnar eiga sér langa hefð á Hvammstanga en upphaflega var stofnað til þeirra af  þáverandi Fegrunarfélagi sem stóð fyrir gróðursetningu og byggði upp garðinn við sjúkrahúsið. Er þetta er í 63. sinn sem hátíðahöldin eru með þessu sniði en það er einmitt einn af stofnendum og félagsmönnum Fegrunarfélagsins, Ingibjörg Pálsdóttir, sem boðar til þeirra.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir