Ós textílmiðstöð á Blönduósi er framúrskarandi verkefni á sviði menningar
Í gær var sagt frá því á Feyki.is hvaða aðili hlaut viðurkenningu SSNV sem framúrskarandi verkefni á sviði atvinnuþróunar og nýsköpunar. Eins og kom fram í fréttinni var einnig tilkynnt um hvaða aðili hlaut viðurkenningu sem framúrskarandi verkefni á árinu 2022 á sviði menningar. Sá heiður kom í hlut Óss Textíllistamiðstöðvar áBlönduósi fyrir rekstur á miðstöð fyrir textíllistafólk.
Í frétt á vef SSNV segir: „Rekstur Óss textílmiðstöðvarinnar er metnaðarfull og hefur vakið mikla athygli og er þekkt meðal textílfólks víða um heim. Ós hefur verið starfrækt í Kvennaskólanum í samstarfi við Textílmiðstöð Íslands síðan 2013 og er opin allt árið um kring. Þátttakendur eru á fjórða hundrað og dvelja þar minnst mánuð í senn. Ós er ætluð listafólki, fræðafólki og hönnuðum sem vinna með textíl í víðu samhengi, allt frá hefðbundnu handverki, rannsóknum, hönnun hagnýtra hluta og sköpun listaverka til stafræns textíls.“
Fram kemur að boðið er upp á gisti- og vinnuaðstöðu fyrir allt að 13 einstaklinga og gefst þátttakendum tækifæri á að nýta aðstöðuna á staðnum, s.s. sameiginleg stúdíórými, vefnaðarloft, litunarstúdió og gallerí. Í hverjum mánuði er boðið upp á fyrirlestur um íslenskan textíl, ullarframleiðslu og stutt námskeið í tóvinnu.
Listamenn hafa líkt og aðrir aðgengi að TextílLabi, stafrænni smiðju á vegum Textílmiðstöðvarinnar en hún var tekin í gagnið í maí 2021. „Síðan hefur aðsókn aukist jafnt og þétt og er Ós með mikla sérstöðu hvað varðar listamiðstöðvar í heiminum vegna þessa,“ segir loks í fréttinni.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.