Örvar lofthræddi í heimsókn í Skagafirði
Þjóðleikhúsið er á ferð um landið þessa dagana með barnasýningu sem nefnist Lofthræddi örninn Örvar. Í morgun fóru börn í skólahóp leikskólanna og 1. bekk grunnskólanna í Menningarhúsið Miðgarð og horfðu á sýninguna.
Leikritið er eftir Stalle Ahrreman og Peter Engkvist, en Björn Ingi Hilmarsson leikstýrir verkinu. Um þýðingu sá Anton Helgi Jónsson. Oddur Júlíusson leikur öll hlutverkin og segir söguna á stórskemmtilegan hátt með látbragði, söng, dansi og leik.
Leikritið fjallar um Örvar, sem er örn, en er svo skelfilega óheppinn að vera lofthræddur. Hann þráir heitt að geta flogið um loftin blá og með hjálp vinar síns, músarrindilsins, tekst honum að lokum að yfirvinna ótta sinn og fljúga.
Börnin skemmtu sér konunglega í morgun eins og sjá má á myndum á vefsíðu Sveitarfélagsins Skagafjarðar. „Við vonumst til þess að þessi heimsókn opni augu Þjóðleikhússins fyrir því að koma oftar til okkar, nú þegar þau hafa séð hve góða aðstöðu við eigum í Miðgarði,“ segir Bryndís Lilja Hallsdóttir, verkefnastjóri hjá í atvinnu-, menningar- og kynningarmálum hjá Sveitarfélaginu Skagafirði.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.