„Maður fær víst ekki allt sem maður vill“
Nú í vikunni varð ljóst, mörgum til talsverðra vonbrigða, að körfuboltinn hefur verið settur á ís fram yfir áramót og í raun algjörlega útilokað að spá fyrir um hvenær Íslandsmótið hefst á ný. Vonast hafði verið til að leyfi fengist til að hefja æfingar fyrri partinn í desember en KKÍ gaf út yfirlýsingu þar sem fram kom að ekki yrði keppt frekar í körfubolta 2020. „Vonir standa til að keppni geti hafist snemma í janúar, en framhaldið ræðst algjörlega af stöðu faraldursins og þeim takmörkunum sem gilda hverju sinni...“ segir ennfremur í yfirlýsingunni.
Feykir hafði samband við Ingólf Jón Geirsson, formann körfuknattleiksdeildar Tindastóls, og spurði hann út í standið á körfuboltanum, leikmönnum og fjárhag deildarinnar.
Nú er ljóst að enginn körfubolti verður spilaður fyrr en á nýju ári. Hvernig leggst það í körfuboltamenn á Króknum? „Það var hálfgert áfall að fá fréttir um engar tilslakanir, við vorum vongóð um að fá í það minnsta að æfa og sjá þá fram á möguleikann að ná hugsanlega nokkrum leikjum fyrir áramót en svona er lífið, maður fær víst ekki allt sem maður vill.“
Mun körfuknattleiksdeildin grípa til einhverra ráðstafana í kjölfar þessarar ákvörðunar? „Það hefur ekki verið tekin ákvörðun innan stjórnar varðandi næstu skref, allir okkar leikmenn íslenskir sem erlendir eru í Skagafirði og bíða spenntir eftir að fá að æfa.“
Hvenær reiknið þið með að mótið fari í gang á ný? „Já, þegar stórt er spurt. Það eina sem KKÍ hefur gefið út er enginn körfubolti í desember. Við erum ekki búin að fá nýja áætlun, hún er í smíðum hjá KKÍ.“
Hafa leikmenn eitthvað getað æft síðustu tvo mánuði? „Æfingar hafa eitthvað verið misjafnar milli svæða, fyrst voru hertari aðgerðir á höfuðborgarsvæðinu en svo tóku heimaæfingar við. Við erum svo vel í sveit sett að vera með topp íþróttamenn sem hugsa vel um heilsuna og líkama sinn og hafa leikmenn, jafnt íslenskir sem erlendir, verið gríðarlega duglegir að halda sér við heima, sem er frábært en kemst þó aldrei nálægt því að fá að æfa saman sem lið inni í húsi hönnuðu til íþróttaiðkunnar með mikilli lofthæð, góðri loftræstingu og vítt til veggja og þar af leiðandi meiri möguleika á að passa sig og sína tvo metra en á mörgum öðrum stöðum í samfélaginu.“
Hefur þú áhyggjur af einhverju sérstöku vegna þessarar löngu pásu, einhverjir hafa viðrað áhyggjur sínar af andlegri heilsu íþróttaiðkenda? „Auðvitað hefur maður miklar áhyggjur, líkamlegri og ekki síst andlegri heilsu leikmanna er ógnað, og að fá engin svör er mjög erfitt, bíða fund eftir fund og ekkert gerist. Svo hef ég orðið gríðarlegar áhyggjur af íslenskum körfubolta, persónulega fannst mér síðasta tímabil það besta í mörg ár. Gæði körfuboltans og fagmennska allra sem að íþróttinni koma hefur stóraukist og var gríðarleg tilhlökkun að upplifa þetta tímabil eftir frekar snubbóttann endi síðasta tímabils. En nú er búið að spila örfáa leiki kk og kvk í öllum deildum, búið að þurrka út einhverjar neðri deildir, bikarkeppnin í stórhættu, leikmönnum fer fækkandi, gæðin minnka, áhuginn og umtalið minnkar og þar kemur að störa högginu. Nú er búið að leggja gríðaráherslu á börn og unglinga, það er frábært að þau megi orðið æfa, en körfubolti er íþrótt heildarinnar þar sem árangur og gæði tengjast saman, upp og niður allt starf deildanna. Yngra starf og afreksstarf deildanna er samofið í þessum þáttum; árangur, gæði og umfjöllun. Ég vona að við komumst út úr þessum vetri án þess að missa niður gæði deildanna en viðurkenni fúslega að ég hef stórar áhyggjur af framtíð körfuboltans á Íslandi.“
Nú þarf körfuknattleiksdeildin að greiða leikmönnum og þjálfurum laun. Hvernig gengur að standa við skuldbindingar nú þegar fáar krónur koma í kassann og hvað geta stuðningsmenn Stólanna gert til að létta undir með félaginu? „Fjárhagur deildarinnar er erfiður, það verður að viðurkennast, en þegar allir leggjast á árarnar;stjórn, leikmenn, fyrirtæki og stuðingsfólkið okkar góða, þá þokast allt í rétta átt. Við njótum góðs af því að eiga besta stuðningsfólk á Íslandi, margir eru vildarvinir körfuknattleiksdeildar Tindastóls sem er mjög mikilvægur hópur í okkar starfi. Vildarvinir og árskortahafarnir eru okkar dyggustu stuðningsmenn. Árskortahöfum fækkaði mjög lítið þrátt fyrir spurningar um leiki og áhorfendur. Svo hefur okkur verið vel tekið í fjáröflunum vetrarins. Núna er happdrættið okkar komið í sölu, verður dregið þar 30. desember svo það er kjörið að lauma miða með i jólapakkann, jafnt fyrir fyrirtæki og einstaklinga. Jóla-ísinn frá Emmess er að fara i sölu hjá okkur og jólatréssala verður á sínum stað á Eyrinni. Loksstefnum við á ruslatunnuþrif þegar veður leyfir, nýtt verkefni sem leikmennirnir okkar eru spenntir fyrir,“ segir Ingó og bætir við: „Við hja Tindastóli lítum á okkur sem eina heild sem hjálpast að á erfiðum tímum, fögnum saman þegar vel gengur og stöndum saman sama hvað á dynur. Við erum fjölskylda; stjórn, leikmenn og stuðningsfólkið okkar góða og ef við stöndum saman og hjálpumst að þá komumst við í gegnum þetta!“
Feykir þakkar Ingó fyrir greinargóð svör.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.