Lýðheilsugöngur Ferðafélags Íslands

Ferðafélag Íslands mun standa fyrir lýðheilsugöngum um allt land, alla miðvikudaga í september að því er segir í fréttatilkynningu frá félaginu. Göngurnar eru hluti af afmælisdagskrá FÍ en félagið fagnar 90 ára afmæli á árinu. Göngurnar hefjast kl. 18:00 alla miðvikudaga, vítt og breitt um landið, og verður fyrsta gangan í dag, 6. september. Um er að ræða fjölskylduvænar göngur sem taka  u.þ.b. 60-90 mínútur og er tilgangurinn með verkefninu að hvetja fólk á öllum aldri til útivistar og hreyfingar í góðum félagsskap og efla þar með heilsu sína og lífsgæði.

Allar upplýsingar um göngustaði og gönguleiðir má finna á heimasíðu verkefnisins www.fi.is/lydheilsa. Þar gefst almenningi einnig kostur á að skrá sig í lukkupott sem dregið verður úr í október og geta heppnir göngugarpar hreppt glæsilega vinninga.

Bæklingi hefur jafnframt verið dreift inn á öll heimili í landinu auk þess sem hægt er að finna verkefnið á Facebook undir „Lýðheilsugöngur Ferðafélags Íslands“.

Valitor og VÍS koma að verkefninu með Ferðafélagi Íslands auk þess sem Velferðarráðuneytið og Embætti landlæknis eru faglegir samstarfsaðilar.

Ferðafélagið hvetur landsmenn til að reima á sig gönguskóna, koma út að ganga á miðvikudögum í september og njóta náttúrunnar í sameiningu. Þátttaka er ókeypis og allir hjartanlega velkomnir.

Hægt er að nálgast upplýsingar um gönguferðir á Norðurlandi vestra hér.

Fyrstu göngurnar verða, eins og áður er sagt í kvöld og hefjast kl. 18:00.
Á Hvammstanga verður lagt af stað frá Kirkjuhvammskirkju og gengið að Snældukletti. Göngustjóri er Magnús Eðvaldsson. Ekki eru komnar upplýsingar inn á vefinn um fleiri skipulagðar göngur á svæðinu í dag.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir