Leikhópurinn Lotta sýnir Rauðhettu
Leikhópurinn Lotta er nú á ferð um Norðurland með söngleikinn Rauðhettu sem frumsýndur var í Tjarnarbíói í byrjun janúar. Þetta er annar veturinn í röð sem Leikhópurinn Lotta, sem hefur sérhæft sig í sýningum utandyra, setur upp sýningar í Tjarnarbíói og ferðast í framhaldi af því með sýninguna vítt og breitt um landið.
Rauðhettu setti hópurinn fyrst upp árið 2009 en nú, tíu árum síðar, er rykið dustað af þessu skemmtilega verki og fært nýjum og gömlum áhorfendum í glænýjum búningi. „Ævintýrið um Rauðhettu og úlfinn þekkja allir en í meðförum Lottu hefur tveimur þekktum ævintýrum til viðbótar verið bætt í leikinn. Það eru sögurnar um grísina þrjá og systkinin Hans og Grétu. Þá eru í verkinu meira en 10 stórskemmtileg lög sem binda söguna saman. Úr verður gómsætur ævintýrakokteill sem enginn má láta framhjá sér fara,“ segir í kynningu á verkinu á Facebook.
Höfundur verksins er Snæbjörn Ragnarsson en höfundar laga og texta eru Baldur Ragnarsson, Gunnar Ben. og Snæbjörn Ragnarsson. Leikstjóri er Ágústa Skúladóttir
Sýnt verður í Félagsheimilinu á Hvammstanga í dag, mánudaginn 28. janúar, á morgun, þriðjudag 29. janúar í Félagsheimilinu á Blönduósi og í íþróttahúsinu á Sauðárkróki á miðvikudag, 30. janúar. Allar sýningarnar hefjast klukkan 17:30.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.