Krókurinn í denn – Danirnir á Króknum í tali og tónum
Krókurinn í denn – Rósir á mölinni - er yfirskrift sýningar sem sett er upp á Sauðárkróki í tilefni af 100 ára afmæli fullveldis Íslands og er eitt þeirra verkefna sem hlaut styrk til uppsetningar frá fullveldisnefnd. Eins og nafnið bendir til mun sýningin hverfa með áhorfendum aftur í tímann og bregða upp myndum sem sýna hin miklu áhrif sem Danir höfðu á uppbyggingu og mannlíf staðarins um aldamót 19. og 20. aldar.
Að sýningunni stendur hópur áhugafólks sem skipaður er þeim Árna Ragnarssyni, Guðbrandi Ægi Ásbjörnssyni, Guðmundi Ragnarssyni, Gunnari Sandholt, Herdísi Sæmundardóttur, Selmu Barðdal, Sigfúsi Inga Sigfússyni og Sólborgu Unu Pálsdóttur. Hefur Herdís séð að mestu um að stýra vinnunni en aðrir meðlimir hópsins hafa komið að verkefninu með mismunandi hætti.
Blaðamaður Feykis hitti tvo meðlimi hópsins á dögunum, þær Herdísi og Selmu, og fékk þær til að segja sér lítillega frá sýningunni.
„Verkefnið lýtur að því að minnast uppbyggingar Dana hér á Sauðárkróki, samvinnu þeirra við Skagfirðinga og íbúa hér og þess hvernig Danir tóku þátt í að gera Sauðárkrók að þeim bæ sem hann varð. Verkefnið hlaut náð fyrir augum fullveldisnefndar og úr var að setja upp revíu þar sem fjallað er í tali, tónum og textum um þessa uppbyggingarsögu og farið yfir búsetu Dana hér á Sauðárkróki og hvernig þeir tóku þátt í að byggja upp menningar-, atvinnu- og menntalíf hér á staðnum og í rauninni að búa til bæinn með Skagfirðingum.“
Revían er byggð þannig upp að sögumenn munu stikla á stóru í sögunni en einnig koma fram ýmsir tónlistarmenn, bæði einsöngvarar, dúett og kvartett. Meðal þeirra sem fram koma eru söngvararnir Kristjana Arngrímsdóttir og Róbert Óttarsson, kvartett úr Karlakórnum Heimi undir stjórn Stefáns R. Gíslasonar og félagar úr Leikfélagi Sauðárkróks sem flytja leikin atriði undir stjórn Guðbrands Ægis Ásbjörnssonar. Þá mun Brynjar Pálsson, fyrrum bóksali, fjalla í nokkrum orðum um tengdaforeldra sína, apótekarahjónin Ole og Minnu Bang, en segja má að hin danska saga Króksins hafi að vissu leyti lifað áfram í gegnum þau. Áhuginn á samskiptum og vináttu við Dani hefur einnig lifað með ýmsum öðrum hætti. Nægir að nefna að í ár fagnar Árskóli 20 ára samskiptum við skóla í vinabæ okkar Køge, en á hverju ári eiga sér stað gagnkvæmar nemendaheimsóknir.
„Markmiðið með þessu er að auka meðvitund okkar hér um þann mikla og stóra þátt sem Danir áttu í því að Krókurinn varð að bæ,“ segja þær stöllur. „Þeir voru frumkvöðlar og höfðu svolítið þá sýn að Sauðárkrókur ætti að hafa allt það til að bera sem borgir hefðu, svo sem götur, kirkju, skóla, sjúkrahús, leikhús og ýmsa menningu. Menn vildu gera Sauðárkrók að almennilegum bæ. Sýningunni er ætlað að vekja athygli á sögunni þó þarna sé ekki verið að gera henni skil með einhverjum sagnfræðilegum hætti, heldur bara að reyna að miðla andrúmsloftinu.“
Þó sýningin sé ekki sagnfræðileg er vissulega stuðst við margar heimildir. Í sýningarskrá stendur að Gunnar Sandholt hafi „dýft sér á kaf í söguna og tekið saman söguþráðinn“ og stuðst þar við fjölda ritaðra heimilda, þá helst Sögu Sauðárkróks og Skagfirzkan annál eftir Kristmund Bjarnason en einnig greinar úr Skagfirðingabók og ævisögur merkra manna.
Saga Dana á Sauðárkróki virðist hafa yfir sér öllu jákvæðari blæ en þann sem lesa má um í sögubókum. „Það gerðist auðvitað víða á þessum tíma að Danir mynduðu sitt eigið samfélag og sína yfirstétt en það gerðist ekki hér og þess vegna er kannski svona ákveðin viðurkenning og væntumþykja gagnvart þessum frumbyggjum hérna.,“ segir Herdís að lokum.
Sýnt verður tvisvar sinnum, fimmtudaginn 6. og laugardaginn 8. desember kl. 20:00 í Bifröst á Sauðárkróki. Miðaverð er 2.500 krónur.
Hægt er að panta miða á sýninguna hjá Herdísi í síma 897 6618 og Selmu í síma 844 9874.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.