Hársprey á árshátíð eldri nemenda í Varmahlíð

Eldri bekkir Varmahlíðarskóla halda árshátíð sína og sýna söngleikinn Hársprey í Miðgarði í dag klukkan 17:00 og annað kvöld, föstudag, klukkan 20:00. Eftir sýninguna í dag er, samkvæmt hefð, boðið upp á veislukaffi í Varmahlíðarskóla en að seinni sýningu lokinni verður unglingaball fyrir 7.-10. bekk í Miðgarði þar sem meðlimir úr Hljómsveit kvöldsins sjá um að halda uppi fjörinu.

Hársprey er eftir Mark O’Donnell og Thomas Meehan en Íris Olga Lúðvíksdóttir og Árni Friðriksson þýddu handritið sem Varmahlíðarskóli byggir uppsetningu sína á. Söngleikurinn fjallar um mannlíf í bandarísku borginni Baltimore og gerist á sjöunda áratug síðustu aldar þar sem glaðværi unglingurinn Tracy Turnblad reynir að koma sér á framfæri sem dansari í sjónvarpsþætti bæjarins og berst á móti kynþáttafordómum.

Að sögn Helgu Rósar Sigfúsdóttur, leikstjóra verksins, koma allir nemendur 7.–10. bekkjar í Varmahlíð að uppsetningunni með einum eða öðrum hætti en burðarhlutverkin eru í höndum 10. bekkinga auk þess að semja flesta dansana. Nemendur 10. bekkjar fengu sitt hlutverk í hendur í desember og þá var einnig farið að líta aðeins á dansana með aðstoð danskennara og voru æfingar svo teknar upp af fullum þunga strax að loknu jólafríi. Helga segir æfingar hafa staðið allan skóladaginn og stundum meira en það.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Helga Rós setur upp stórar sýningar með Varmahlíðarskóla og hefur ekkert verið ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur við val á viðfangsefnum. Til að mynda settu þau Mamma Mia á svið í fyrra en einnig má nefna söngleikina Grease og Footloose.  „Þetta er líklega sú tólfta,“ segir Helga aðspurð um hvað hún hafi sett margar sýningar á svið hjá skólanum,“ og þetta er alltaf jafn gaman. Það er mikið lærdómsgildi fólgið í að setja upp svona sýningu. Auk þess að þurfa að læra mislangar rullur og koma þeim frá sér á skýran hátt semja nemendur 10. bekkjar flesta dansana og kenna yngri nemendum þá. Nemendur þurfa að læra og æfa sönglög, þeir koma að því að græja og gera sviðsmynd, smíða og mála auk ýmiss konar hugmyndavinnu. Einnig eru nemendur sem hljóðmenn, sviðsmenn og ljósamenn. Og svona mætti lengi telja. Auk þessa alls þarf svo að vinna þetta sem einn hópur svo úr verði sýning.“ 

Aðeins verða þessar tvær sýningar á verkinu og rétt er að geta þess að ekki er hægt að greiða með greiðslukortum. 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir