Hamingjan í lífi og starfi
Fimmtudaginn 3. nóvember býður Soroptimistaklúbbur Skagafjarðar upp á opinn fyrirlestur í Húsi Frítímans kl. 20:00. Fyrirlesari er Anna Lóa Ólafsdóttir, ráðgjafi, kennari og fyrirlesari sem heldur meðal annars úti síðunni Hamingjuhornið. Fyrirlesturinn snýst um það sem kemur okkur öllum við: hamingjuna.
"Erum við að keppast við að leita að hamingjunni þegar hún er kannski beint fyrir framan okkur? Getum við aukið hamingju okkar og þá hvernig? Hvað einkennir hamingjusamt fólk í lífi og starfi? Það skiptir máli að vera ánægður hér og nú, á sama tíma og það er mikilvægt að takast á við tímabærar breytingar. Spurning um að verða betri en ekki bitur! Viðhorfin skipta miklu máli og geta vegið meira en annað sem við mundum telja að væri forsenda fyrir hamingjusamara lífi. Hvernig aukum við hamingjuna á vinnustaðnum og í samskiptum við aðra? Er glasið hálf-fullt eða hálf-tómt? Er álagið að fara með okkur?" segir meðal annars í tilkynningu um fyrirlesturinn.
Fjallað er um þessa þætti og fleira í skemmtilegum og fræðandi fyrirlestri um það sem okkur dreymir öll um að upplifa – meiri hamingju! Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir. "Hlökkum til að eiga ánægjulega kvöldstund með ykkur," segir í tilkynningu um viðburðinn.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.