Gáfu HSN raförvunartæki í tilefni af 30 ára afmæli K-Taks
Ljóst er að margar stofnanir væru fátækar af tækjabúnaði ef ekki væri fyrir velvild félagasamtaka, einstaklinga og fyrirtækja þegar kemur að tækjakaupum. Á dögunum mætti Knútur Aadnegard í sjúkraþjálfun HSN á Sauðárkróki með höfðinglega gjöf frá fyrirtæki sínu K-Tak í tilefni 30 ára afmæli þess.
Knútur hafði orð á því hversu mikilvægt það væri fyrir okkur í þessu samfélagi að hafa svona öfluga sjúkraþjálfun og flotta aðstöðu, það væri sko ekki í boði alls staðar. Hann sjálfur væri ekki ennþá að vinna ef ekki væri fyrir þau, svo ekki væri minnst á allt íþróttafólkið okkar sem þyrfti oft að leita til þeirra með sín vandamál.
Tækið góða sem Knútur færði þeim er frá Fastus ehf. og er raförvunartæki sem nýtist vel í meðferð sjúkraþjálfara við ýmsum einkennum frá stoðkerfi fólks, einkum til að minnka verki og ná endurheimt og örvun á vöðva líkamans. Sjúkraþjálfarinn hans Knúts sagðist svo ætla að leyfa honum að prófa græjuna næst þegar hann kæmi. Svo það er óhætt að segja að létt hafi verið yfir mannskapnum.
Starfsfólk HSN vill svo að sjálfsögðu koma á framfæri þakklæti til Knúts og fyrirtækis hans fyrir þessa góðu gjöf og þann hlýhug sem stofnuninni er sýndur.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.