Forsetahjónin heimsóttu Hvammstanga
Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands og Elíza Reid forsetafrú, heimsóttu Húnaþing vestra á sunnudaginn og sóttu m.a. aðventustund í setustofunni á sjúkrahúsinu með heimilisfólki og öðrum gestum. Síðan héldu þau í heimsókn í Verslunarminjasafnið þar sem Þuríður Þorleifsdóttir tók á móti gestunum og sagði frá starfseminni. Að því loknu sátu forsetahjónin aðventustund í Hvammstangakirkju sem í þetta sinn var sameiginleg stund allra kirkna í sveitarfélaginu.
Þetta má allt saman lesa í forvitnilegri dagbókarfærslu sveitarstjóra Húnaþings vestra, Unnar Valborgar Hilmarsdóttur, sem gefur skemmtilega og fræðandi innsýn í störf sveitarstjóra.
Um aðventustundina í Hvammstangakirkju segir Unnur Valborg: „Eliza flutti einstaklega fallega hugvekju þar sem hún vitnaði m.a. í eina af predikunum afa síns sem var prestur. Dagskrá aðventustundarinnar var hlaðin tónlistarflutningi okkar frábæra tónlistarfólks. Valdimar Gunnlaugsson og Rannveig Erla Magnúsdóttir fluttu eitt lag í upphafi stundar við undirleik Guðmundar Grétars Magnússonar. Kirkjukórinn söng nokkur lög og gerði það listavel við undirleik og stjórn Pálínu Fanneyjar og lék Kristín Guðmundsdóttir undir í einu laganna á þverflautu. Rokkkórinn söng nokkur lög undir stjórn Ingibjargar Jónsdóttur og er ég nokkuð viss um að hróður kórsins á eftir að berast víða. Algerlega frábær flutningur hjá þeim. Auk þess tóku börn í 6-9 ára starfi kirkjunnar sem og TTT starfinu þátt í athöfninni að ógleymdum fermingarbörnunum. Séra Magnús var kynnir á stundinni. Það er óhætt að segja að ég hafi komist í jólaskapið þegar kveikt var á kertum í lok athafnar, rafljós kirkjunnar slökkt og gestir sungu Heims um ból.“
Myndirnar hér að neðan tók Unnur og hér má lesa nánar um störf sveitastjóra Húnaþings vestra >
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.