„Fæddist á enda regnbogans,“ segir María Carmela Torrini sem sýnir litrík verk sín í Safnahúsi Skagfirðinga
Á setningu Sæluvikunnar sl. sunnudag var opnuð litrík myndlistarsýning hinnar ungu listakonu Maríu Carmelu Torrini. Fallegar myndir og frumlegar sem efalaust hreyfa við áhorfandanum.
María býr í Breiðholtinu sunnan heiða í lítilli krúttlegri íbúð með gínunni sinni og kærasta. Gínuna útskýrir hún sem fyrrum fatagínu sem hún fékk fyrir mynd en nú sé hún ótrúlega töff. Þegar María er spurð út í tenginguna við Skagafjörð kemur í ljós að kærastinn er Guðmundur Elí Jóhannsson frá Hólum í Hjaltadal, og tengdaforeldrarnir því Jóhann, skólastjóri, Bjarnason og Laufey Guðmundsdóttir kennari í Grunnskólanum austan Vatna.
En hvernig ætli myndirnar verði til hjá listakonunni?
„Ég hef aldrei planað neitt þegar ég er að teikna myndir, þær bara koma. Ég fæ kannski hugmynd, kannski ég teikni önd, og þá teikna ég önd og svo kemur allt út frá því, þannig að það er aldrei neitt planað né skissað upp. Ég teikna bara það sem kemur upp í hausinn og hann er svolítið litríkur,“ útskýrir hún.
María var á listabraut í Fjölbrautaskólanum í Ármúla og segist hún alltaf hafa verið teiknandi frá því hún var barn. „Mamma mín er listakona þannig að ég er alin upp á heimili þar sem allir eru að mála. Auk þess er ég í kvikmyndagerð, mest að skrifa handrit en hef einnig verið að leika. Núna er ég að vinna í handriti að heimildamynd sem ég hef aldrei gert áður og er mjög spennt,“ segir hún.
Myndin fjallar um einelti en hún segist ætla að reyna að gera hana þannig að fólk verði ekki þunglynt eftir að hafa horft á hana. „Mig langar að gera mynd um eitthvað erfitt viðfangsefni sem maður getur samt horft á og farið út úr bíósalnum án þess að vera gráti nær. Langar að gera eitthvað litríkt.“
Ertu litrík?
„Já, ég er regnbogabarn, fæddist á enda regnbogans. Og núna er ég að reyna að koma litum út í gegnum fingurna.“ Sýning Maríu mun standa út Sæluvikuna en fyrir áhugasama skal bent á að hægt er að skoða verk hennar á Instagram og Facebook undir heitinu MCT.art.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.